Fréttasafn



16. maí 2013

Málmtækninám í Borgarholtsskóla

Í vetur sóttu 60 nemendur úr 9. og 10. bekk grunnskóla nám í málmiðngreinum í Borgarholtsskóla. Nemendurnir komu úr 10 skólum víðs vegar að úr borginni og lögð var áhersla á að veita þeim innsýn í iðnnám og kynnast nokkrum verkþáttum þess.

Kennt var í fjórum lotum þar sem kennd voru undirstöðuatriðin í logsuðu, plötusmíði, rafeindatækni og vélfræði. Megináherslan var lögð á verklegu þættina þar sem nemendur smíðuðu m.a. litla verkfærakistu úr áli, settu saman rafrás, logsuðu, smíðuðu og lóðuðu saman bát, smíðuðu kertastjaka með því að nota tölfustýrða fræsivél og skáru ýmsa hluti út með því að nota tölfustýrða plasmaskurðarvél. Í upphafi hverrar lotu var farið yfir öryggisþætti.   

Tilgangurinn með verkefninu er að kynna nemendum möguleika málmtæknináms og auðvelda þeim að velja sér nám við hæfi.

Lögð var skoðanakönnun fyrir nemendur í lok annar. Þar kemur fram að þeir voru almennt ánægðir með námið og telja sig hafa haft gott af því. Misjafnt er hvaða framhaldsskóla þeir ætla að velja að loknum grunnskóla en þó nokkrir ætla að halda námi áfram í Borgarholtsskóla.

Hér má lesa nánar um verkefnið