Fréttasafn16. maí 2013

Aðalfundur SMK

Aðalfundur Samtaka mjólkur- og kjötvinnslufyrirtækja, SMK,  var haldinn í gær, miðvikudaginn 15. maí. Þar kynnti Ingólfur Friðriksson, lögfræðingur í utanríkisráðuneytinu, drög að frumvarpi til laga um vernd vöruheita með uppruna- og staðarvísun sem unnið er að á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Stefnt er því að drögin verði birt til umsagnar á netinu fyrir sumarið og hugsanlega lagt fram frumvarp á Alþingi í haust.

Guðni Ágústsson var endurkjörinn formaður og Einar Sigurðsson, Gunnar Þór Gíslason og Magnús Freyr Jónsson, endurkjörnir í stjórn. Sigurður Jóhannesson lét af stjórnarstörfum eftir þriggja ára setu og voru honum þökkuð einstaklega góð störf í þágu félagsins. Í hans stað var Karl Ómar Jónsson kosinn í stjórn. Varamenn voru kjörnir Sigmundur E. Ófeigsson og Steinþór Skúlason.

Að loknum aðalfundarstörfum efndu SMK til umræðufundar með forsvarsmönnum Samtaka atvinnulífsins, Samtaka iðnaðarins og Bændasamtaka Íslands. Guðni Ágústsson, formaður SMK og Björgólfur Jóhannsson, formaður SA fluttu erindi um mikilvægi þess að auka framleiðni og verðmætasköpun í hagkerfinu og stöðu úrvinnslugreina landbúnaðarins í því samhengi. Í framhaldinu voru opinskáar umræður um mikilvægi landbúnaðar og afleiddra greina í víðtæku samhengi.