Fréttasafn17. maí 2013

Greining á þörf almenns starfsfólks í matvælaiðnaði fyrir starfsmenntun

Samtök iðnaðarins, Starfsgreinasamband Íslands og Fræðslumiðstöð atvinnulífsins stóðu saman að verkefni sem miðaði að því að greina þörf almenns starfsfólks í matvælaiðnaði fyrir starfsmenntun. Verkefnið var styrkt af Mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Markmið þess var að kortleggja samsetningu hópsins og þarfir hans fyrir fræðslu auk þess að afla upplýsinga um núverandi stöðu fræðslumála og þarfir fyrirtækjanna. Upplýsingum frá fyrirtækjum var aflað með svokölluðu fjarumræðuborði á netinu og frá starfsmönnum með spurningalista.

Fyrirtækið Maskína sá um framkvæmd könnunarinnar. Verkefninu er nú lokið og er skýrsla fyrirliggjandi á vef Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins www.frae.is.

Smellið hér til að lesa skýrslu.

Í framhaldi af gagnaöfluninni var kallaður saman hópur sem samanstóð af bæði almennum starfsmönnum og stjórnendum úr matvælafyrirtækjum til að skilgreina almenn störf í matvælafyrirtækjum og hvaða þekkingu og færni starfsfólk þarf að búa yfir til að mæta síauknum kröfum sem gerðar eru til fyrirtækja til að tryggja öryggi og gæði matvæla. Einnig þarf að tryggja öryggi starfsfólks í umgengni og snertingu við framleiðsluafurðir og tækjabúnað.