Fréttasafn



23. maí 2013

Tækifæri til að efla atvinnulífið í Evrópu

Árlegt stefnumót atvinnulífsins í Evrópu (e. European Business Summit) fór fram í Brussel í liðinni viku. Þar komu saman helstu forystumenn atvinnulífsins og Evrópusambandsins til að ræða um framtíðina. Viðfangsefni fundarins að þessu sinni var að finna leiðir til að efla evrópskan iðnað og skapa vöxt með því að nýta þau fjölmörgu tækifæri sem eru til staðar. Svana Helen Björnsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins, tók þátt í umræðum um hugverkarétt ásamt Philippe Lambrecht, framkvæmdastjóra samtaka atvinnulífsins í Belgíu, Alexander von Gabain, forseta Evrópustofnunar nýsköpunar og tækni og Margot Fröhlinger, framkvæmdastjóra Evrópsku einkaleyfastofnunarinnar.

Svana ræddi um mikilvægi einkaleyfa og sagði fjölda þeirra hverju sinni einn mælikvarða á þann árangur sem næst með nýsköpun. Hún benti á að ýmsir telji að einkaleyfi í hugbúnaðargerð eigi ekki rétt á sér en þó sé mikilvægt í þeim geira eins og öðrum standa vörð um fjárfestingu í nýsköpun. Þá sagði hún að að öflugur hugbúnaðargeiri og upplýsingatækni væri forsenda þess að hægt væri að nýta ný tækifæri í evrópsku atvinnulífi og sækja fram. „Við erum öll sammála um að skapa ný störf og hleypa nýju lífi í efnahagslífið þar sem hagvöxtur er of lítill. Við þurfum að bregðast hratt við, skapa nýjar lausnir og tækifæri fyrir unga fólkið okkar ásamt því að tryggja fyrirtækjum góð starfsskilyrði og að þau búi við fyrirsjáanleika í starfsumhverfinu."

Svana sagði upplýsingatæknina breytast mjög hratt en rannsóknir og þróun væri grunnur að velgengni fyrirtækja innan greinarinnar.

„Til að þjóðir Evrópu geti nýtt sér þá möguleika og ávinning sem upplýsingatæknin getur fært okkur verðum við að tryggja að öflugur hugbúnaðargeiri vaxi og dafni í Evrópu," sagði Svana og lagði áherslu á að nauðsyn þess að nýsköpun verði aukin í upplýsingatækni. Nánar verður fjallað um erindi hennar í næsta tölublaði Íslensks iðnaðar.

Meðal þeirra þeirra sem tóku þátt í European Business Summit voru Jose Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB og Herman Van Rompuy forseti ráðherraráðs ESB. Þá gerði sendiherra Bandaríkjanna grein fyrir undirbúningi vestan hafs að samningaviðræðum um fríverslunarsamning við ESB.

European Business Summit var nú haldið í ellefta sinn í Brussel og sóttu um tvö þúsund stjórnendur viðburðinn. Skipuleggjendur ráðstefnunnar voru sem fyrr samtök atvinnulífsins í Belgíu og evrópusamtök atvinnulífsins, BUSINESSEUROPE, en bæði SA og SI eiga aðild að þeim.

Nánari upplýsingar European Business Summit má finnar hér