Fréttasafn13. jún. 2013

Jafningjafræðsla  - háskólanemar kynna verk- og tækninám

Actavis, Íslandsbanki, Nýherji, Síminn, Samtök iðnaðarins, Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík tóku á liðnum vetri höndum saman í baráttunni við að auka áhuga ungmenna á verk- og tækninámi og fengu til liðs við sig 20 öfluga nemendur beggja háskóla til að fara í framhaldsskóla landsins með kynningu undir heitinu Tækniáhugi.

Háskólanemarnir mynduðu 10 tveggja manna teymi og fóru í alls 47 kynningaferðir í þá framhaldsskóla sem sáu sér fært að taka á móti þeim. Lögð var áhersla á að heimsækja fyrstubekkinga og lagt upp með að kynna þeim þau fjölbreyttu og áhugaverðu störf sem hægt er að starfa við ef nemendur velja sig ekki frá verk- og tæknifögum og halda þannig sem flestum leiðum opnum.

Átakið tókst vel. Af þrjátíu og einum skóla sem fengu boð um þátttöku þáðu tuttugu og níu boðið. Gróflega áætlað má því gera ráð fyrir að um 2000 krakkar hafi hlustað á kynninguna. Fyrirhugað er að halda verkefninu  áfram næsta vetur og markmiðið verður að sjálfsögðu að gera enn betur.