Fréttasafn



  • Fánar Norðurlandanna

19. jún. 2013

Tvær íslenskar tilnefningar til Náttúru- og umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs

Jarðhitaskóli Sameinuðu þjóðanna og íslenska fyrirtækið Carbon Recycling International eru meðal þeirra tíu sem tilnefndir eru til Náttúru- og umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs í ár. Verðlaunahafinn hlýtur 350.000 danskar krónur í verðlaun auk verðlaunagrips.

Norðurlandaráð tilkynnti um tilnefningar til verðlaunanna í dag. Verðlaunin verða veitt fyrirtæki, samtökum eða einstaklingi sem hefur þróað vöru, uppfinningu eða með öðrum hætti aukið skilvirka nýtingu auðlinda og þar með stuðlað að því að draga úr neikvæðum áhrifum mannsins á náttúruna.

Afhending verðlauna Norðurlandaráðs fer fram á Norðurlandaráðsþingi ár hvert. Nýlunda er að nöfn verðlaunahafanna verða ekki tilkynnt fyrr en á verðlaunahátíðinni sem haldin verður í óperunni í Ósló þann 30. október. Verðlaunaafhendingin er sameignleg fyrir öll verðlaun Norðurlandaráðs og verða allir tilnefndir á staðnum.

Norska ríkissjónvarpið sjónvarpar verðlaunaafhendingunni ásamt ríkissjónvarpsstöðvum hinna norrænu ríkjanna. Verðlaunahafar fá 350.000 danskar krónur í verðlaun og í fyrsta sinn einnig glænýjan verðlaunagrip sem verður eins fyrir öll fimm verðlaun.

Nánar um tilnefningarnar og verðlaunin

Frétt fengin af vef Umhverfisráðuneytis