Fréttasafn  • InfoMentor

19. jún. 2013

Mentor eitt af þremur framsæknustu tæknifyrirtækjum í Evrópu á sviði menntunar

Á ráðstefnunni EdTech Europe 2013, sem fram fór í London sl. föstudag, hlaut Mentor viðurkenningu sem eitt af þremur framsæknustu fyrirtækjum í Evrópu sem samþætta tækni og menntun.

Mentor er framsækið og metnaðarfullt fyrirtæki sem hefur jákvæð áhrif á skólastarf auk þess að hafa sýnt mikinn vöxt á síðustu árum. Í InfoMentor er lögð áhersla á vandaða áætlanagerð og námsmat sem fléttað er saman við aðalnámskrá og hægt er að vinna tölfræði uppúr. Þörfin fyrir slík kerfi fer vaxandi um allan heim. Ráðgjafanefnd okkar þótti framlag Mentors til tækniþróunar í skólastarfi og rafrænnar menntunar til eftirbreytni og við óskum þeim alls hins besta varðandi áframhaldandi þróun á þessum vettvangi, segir Benjamin Vedrenne-Cloquet, framkvæmdastjóri og einn stofnenda Edxus.

Á EdTech Europe voru 20 fyrirtæki tilnefnd sem þykja skara framúr á sviði tækni og menntunar í Evrópu. Á ráðstefnunni sl. föstudag var tilkynnt um hverjir vermdu þrjú efstu sæti listans og var Mentor eitt þeirra.

Þetta er einstök viðurkenning á þeirri þróun sem við höfum unnið að og miklum vexti fyrirtækisins hingað til, segir Vilborg Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Mentors. Einnig er þetta frábær hvatning til frekari vaxtar og afreka!

EdTech Europe 2013 er eins dags ráðstefna, þar sem farið er yfir það sem efst er á baugi varðandi þróun og fjárfestingar í upplýsingatækni og menntun. Fyrir ráðstefnunni standa IBIS Capital og Edxus, en það félag var stofnað til að fjárfesta í og þróa fyrirtæki sem vinna að samþættingu tækni og menntunar (e. e-learning). Edxus áætlar að fjárfesta fyrir um 77 milljónir evra í fyrirtækjum á sviði tækni og menntunar á næstu 18 mánuðum.

Rannsóknir IBIS Capital og Edxus sýna fram á veruleg vaxtartækifæri á sviði tækni og menntunar, en áætlað er að greinin muni fimmtánfaldast á næstu 10 árum.