Fréttasafn25. jún. 2013

Söfnunarfé vegna brjóstabollunnar afhent styrktarfélaginu Göngum saman

Við upphaf vikulegrar göngu styrktarfélagsins Göngum saman í gær afhenti Jóhannes Felixson formaður Landssambands  bakarameistara (LABAK) styrktarfélaginu afrakstur sölu á brjóstabollunni í ár samtals 1.7  milljónir króna.  Allt fé sem Göngum saman safnar fer í styrktarsjóð en félagið veitir árlega styrki til grunnrannsókna á brjóstakrabbameini.
Samstarf LABAK og Göngum saman, um sölu á brjóstabollunni í tengslum við mæðradagsgöngu félagsins, hefur nú staðið í þrjú ár, báðum félögum til góðs. Bakarar finna fyrir miklum velvilja almennings í tengslum við þetta verkefni og alls hefur stuðningur LABAK við Göngum saman numið hátt í 5 milljónum króna á þessum þremur árum. LABAK hlakkar til frekara samstarfs við styrktarfélagið Göngum saman og óskar því alls hins besta í framtíðinni.

Á myndinni eru Jóhannes Felixson og Hjálmar E. Jónsson stjórnarmenn í LABAK, Gunnhildur Óskarsdóttir, formaður Göngum saman og aðrir félagar á leið í vikulega hressingargöngu.