Fréttasafn13. ágú. 2013

BIOEFFECT húðvörurnar seldar í yfir tuttugu löndum

Húðvörurnar frá Sif Cosmetics eru nú seldar í yfir 400 verslunum í yfir tuttugu löndum víðs vegar um heim undir vörumerkinu BIOEFFECT. Þeirra á meðal eru margar þekktustu snyrtivöru- lífstíls- og stórverslanir heims, á borð við Colette í París, Selfridges í London, Magasin du Nord í Kaupmannahöfn og La Rinascente í Mílanó.

Nýverið bættist Suður-Afríka í hópinn en þar eru íslensku húðdroparnir nú fáanlegir á um hundrað útsölustöðum. Gengið hefur verið frá samningum við Imbalie Beauty Inc, eina stærstu snyrtistofukeðju þar í landi, um sölu og dreifingu á BIOEFFECT húðvörunum. Salan hefur gengið vonum framar allt frá því að vörurnar voru fyrst kynntar í vor og S-Afríka er nú þegar orðinn mikilvægur markaður fyrir vörur fyrirtækisins.

Um BIOEFFECT

BIOEFFECT húðvörurnar eru byltingarkennd nýjung á alþjóðlegum snyrtivörumarkaði. Einstök virkni þeirra byggir á áratuga rannsóknum á líffræði húðarinnar og erfðatækni sem þróuð er af ORF Líftækni, móðurfélagi Sif Cosmetics. BIOEFFECT vörurnar eru fyrstu húðvörurnar sem innihalda EGF frumuvaka sem framleiddur er í plöntum. EGF er prótein sem húðfrumur nota til að senda skilaboð sín á milli um að hraða endurnýjun húðarinnar og auka framleiðslu kollagens. Frumuvakinn er framleiddur í byggi sem er ræktað í hátæknigróðurhúsi ORF Líftækni í Grindavík.