Fréttasafn



  • twilight-quizup-net

19. sep. 2013

Erlent fjármagn í íslenska tölvuleikjaframleiðslu

Tölvuleikjaframleiðandinn Plain Vanilla kom með tvær milljónir dala til landsins í gegnum fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands, jafnvirði rúmlega 240 milljóna íslenskra króna. Gjaldeyrisútboðið fór fram 23. júlí sl. en greint var frá niðurstöðu þess nú nýverið. 

Í október hyggst Plain Vanilla kynna nýjustu afurð sína, samfélagsnet í kringum spurningaleiki sem fyrirtækið hefur verið að þróa fyrir snjallsíma og spjaldtölvur. Spilarar munu geta spilað spurningaleiki og tengst við spilara í sama bæjarfélagi eða hinum megin á hnettinum. Reynslan af fyrri spurningaleikjum sýnir að sterk tengsl myndast á milli sumra spilara og nýi leikurinn mun stórauka möguleika spilara til að tengjast hvor öðrum. Um hundrað þúsund spurningar verða í gagnagrunninum til að byrja með í yfir hundrað flokkum, en um er að ræða stærsta gagnagrunn sinnar tegundar í heiminum.

Plain Vanilla verður þriggja ára í nóvember en fyrirtækið hefur stækkað afar hratt að undanförnu. Á hálfu öðru ári hefur starfsmönnum fjölgað úr fjórum í tuttugu og fyrr á árinu settu erlendir fjárfestar 300 milljónir til viðbótar í fyrirtækið.  

Nýverið var ákveðið að setja aukið fjármagn í markaðsstarf hjá fyrirtækinu og í ágúst var ráðinn markaðsstjóri frá Bandaríkjunum, Neal Ostrov, en hann starfaði áður hjá samfélagsmiðlinum Mobli.

Ýmir Örn Finnbogason, fjármálastjóri Plain Vanilla segir það mjög gott að vera búin að fá þessa fjármuni inn í landið í gegnum gjaldeyrisútboð Seðlabankans. "Við erum nú á lokaspretti þróunar á nýjustu vöru fyrirtækisins, en þróunin fer nær öll fram í höfuðstöðvum okkar hér á landi. Slík þróun er eðli málsins samkvæmt afar kostnaðarsöm enda þarf til hennar mjög sérhæft starfsfólk með mikla þekkingu, sem er sem betur fer töluvert af hér á landi. Einnig hafa útgjöldin verið að aukast vegna fjölgunar starfsfólks og ýmissar annarrar þjónustu sem við kaupum hér á landi."