Fréttasafn



24. sep. 2013

Samtök iðnaðarins 20 ára

Samtök iðnaðarins voru stofnuð 24. september 1993 þegar sameinuð voru sex helstu samtök iðnaðar: Félag íslenskra iðnrekenda, Landssamband iðnaðarmanna, Félag íslenska prentiðnaðarins, Verktakasamband Íslands, Samband málm- og skipasmiðja og Meistara- og verktakasamband byggingamanna. Þau tóku síðan formlega til starfa um áramótin ´93-´94.

Höfuðmarkmið hinna nýju samtaka var að auka áhrif iðnaðar í þjóðfélaginu, vinna að bættum starfsskilyrðum, hvetja til hagkvæmni í rekstri og leggja áherslu á markvissa vöruþróun, markaðsstarfsemi og menntamál. 

Innan Samtaka iðnaðarins eru um 1.200 fyrirtæki og félög sjálfstæðra atvinnurekenda. Þau eru ólík innbyrðis, hvort sem litið er til stærðar, framleiðslu eða markaða. Þessi fjölbreytni gerir starfið í senn vandasamt og nauðsynlegt þar sem lögð er áhersla á það sem er sameiginlegt en um leið hlúð að því sértæka. Þetta hefur tekist með svo farsælum og árangursríkum hætti að Samtök iðnaðarins eru stærstu og öflugustu hagsmunasamtök atvinnurekenda í landinu.

Samtök iðnaðarins vinna að hagsmunum iðnaðarins á öllum sviðum og í nánu samráði við fyrirtækin sjálf. Byggt er á markvissri stefnumótunarvinnu starfsgreinahópa og félaga. Þjónusta við félagsmenn er annars vegar við einstök fyrirtæki og starfsgreinahópa en hins vegar þverfagleg, s.s. í gæðamálum, menntamálum og markaðs- og kynningarmálum.