Fréttasafn



27. sep. 2013

Skráning er hafin á Smáþing 10. október

Fimmtudaginn 10. október verður blásið til Smáþings á Hótel Reykjavík Nordica þar sem verður stofnaður nýr vettvangur fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki á Íslandi undir merkjum Litla Íslands. Samtök atvinnulífsins og aðildarsamtök SA standa að þinginu en þar verða málefni lítilla og meðalstórra fyrirtækja á Íslandi í kastljósinu. Birtar verða tölur um umfang og mikilvægi smáfyrirtækja á Íslandi, framtakssemi Íslendinga verður mæld með hjálp Capacent og reynt verður að meta hversu mörg störf lítil og meðalstór fyrirtæki geti skapað á næstu 3-5 árum.

 

Tilgangur Litla Íslands er að bæta rekstrarumhverfi lítilla fyrirtækja á Íslandi og að byggja upp kröftugra, betra og skemmtilegra samfélag. Íslenskt atvinnulíf er byggt upp af litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Þau eru lykilþáttur í verðmætasköpun þjóðarinnar, veita tugum þúsunda vinnu og eru mikilvæg uppspretta nýrra starfa og hugmynda.

Fjöldi fulltrúa smáfyrirtækja mun stíga á stokk á Smáþingi benda á það sem vel er gert og það sem má betur fara. Meðal þeirra má nefna Pétur Jónsson, eiganda Medialux, Guðrúnu Jóhannesdóttur framkvæmdastjóri Kokku, Andrés Jónsson stofnanda og eiganda Góðra samskipta og Árna Þór Árnason, stjórnarformann Oxymap.

Á Smáþingi verður fjallað um beina þætti í rekstrarumhverfi lítilla fyrirtækja sem hægt er að bæta. Helga Margrét Reykdal, framkvæmdastjóri True North fjallar um mikilvægi heilbrigðs verktakaumhverfis, Andri Gunnarsson og Páll Jóhannesson lögmenn hjá Nordik Lögfræðiþjónustu fjalla um skynsamlegar skattabreytingar og Þorvarður Gunnarsson, forstjóri Deloitte mun fjalla um nýja nálgun í endurskoðun fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki.

Hjálmar Gíslason stofnandi og framkvæmdastjóri DataMarket mun setja þingið og Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra flytur lokaorð.

Dagskráin Smáþingsins hefst kl. 14 og lýkur kl. 16 en þá gefst þinggestum tækifæri til að stinga saman nefjum undir léttum tónum til kl. 17, kynnast hver öðrum og spá í framtíðina. Fulltrúar aðildarfélaga SA verða á staðnum og kynna þjónustu samtakanna.

Þingið er öllum opið og er ekkert þáttökugjald. Endanleg dagskrá verður birt á næstu dögum en hægt er að skrá þátttöku nú þegar.

SMELLTU HÉR TIL AÐ SKRÁ ÞIG Á SMÁÞING