Fréttasafn  • orri_hauksson

18. okt. 2013

Orri Hauksson ráðinn forstjóri Skipta

Orri Hauksson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, hefur ráðið sig sem forstjóra fjarskiptafélagsins Skipta. Orri hefur á undanförnum rúmum þremur árum gegnt starfi framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, en mun láta af störfum á næstu vikum af fyrrgreindri ástæðu.

Orri Hauksson: „Það er alltaf spennandi að taka við nýjum verkefnum, en það er líka mikil eftirsjá af þeim sérlega áhugaverðu og mikilvægu viðfangsefnum sem ég hef fengið tækifæri til að spreyta mig á hjá Samtökum iðnaðarins. Sú fjölbreytta flóra fyrirtækja sem samtökin skipa, hafa barist hetjulega við erfiðar aðstæður á síðustu árum og munu veita innblástur á nýjum stað. Ég þakka starfsfólki SI fyrir frábært samstarf, stjórnarmönnum samtakanna sömuleiðis fyrir framúrskarandi og ósérhlífið framlag þeirra til alls atvinnulífs í landinu og stjórnendum fyrirtækja innan SI fyrir einstaklega gefandi samvinnu.“