Fréttasafn11. nóv. 2013

Kvennaskólinn sigraði í BOXINU

Fjöldi framhaldsskólanema lagði leið sína í Háskólann í Reykjavík í gær, laugardag, til að etja kappi í hugvitssemi og verkviti. Þetta var í þriðja skiptið sem Boxið – framkvæmdakeppni framhaldsskólanna var haldin en markmið keppninnar er að kynna og vekja áhuga á tækni, tækninámi og störfum í iðnaði. Lið Fjölbrautarskóla Suðurlands var í þriðja sæti og lið Menntaskólans í Reykjavík í öðru.

Alls tóku 18 lið þátt í forkeppni og komust átta efstu liðin áfram. Liðin sem kepptu til úrslita í gær voru: Menntaskólinn í Reykjavík, Verslunarskóli Íslands, Tækniskólinn, Menntaskólinn við Sund, Fjölbrautaskóli Suðurlands, Flensborgarskóli, Kvennaskólinn og Menntaskólinn við Hamrahlíð. Þess má geta að í ár voru stelpur í úrslitakeppninni sjö talsins en voru aðeins tvær í fyrra.

Í Boxinu þurfa keppendurnir að geta unnið hratt og vel að sameiginlegu markmiði og sýna fram á ákveðið hug- og verkvit auk þess sem liðsheild skiptir miklu máli. Keppni af þessu tagi er því góð leið til að gera margvíslegum hæfileikum hátt undir höfði.

Liðin fóru í gegnum þrautabraut með nokkrum stöðvum  og fengu hálftíma til að leysa hverja þraut.  Hvert lið var skipað fimm einstaklingum. Þrautirnar voru settar saman af fyrirtækjum úr ólíkum greinum iðnaðarins með aðstoð fræðimanna Háskólans í Reykjavík. Við mat á lausnum réð meðal annars tími, gæði lausnar og frumleiki.  Dæmi um þrautir í dag voru að búa til lítið fley sem gat flotið á vatni, leysa forritunarþrautir, búa til píanó úr álpappír með aðstoð tölvuforrits og setja saman ýmsa hluti.

Að keppninni standa Samtök iðnaðarins, Háskólinn í Reykjavík og Samband íslenskra framhaldsskólanema. Mennta- og mennignarmálaráðuneytið styður við keppnina.

Fyrirtækin sem komu að gerð þrautanna í ár eru Ístak, Marel, Skema, Járnsmiðja Óðins, Promens, TM Software og Marorka.

Meira um Boxið:

http://www.youtube.com/watch?v=jgr8r2E6xVg&feature=youtu.be

boxid.ru.is

facebook.com/boxid