Fréttasafn



19. nóv. 2013

Norræna skráargatið innleitt á Íslandi

Norræna skráargatið hefur verið innleitt hér á landi. Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skrifaði undir reglugerð, sem staðfestir það, við hátíðlega athöfn í ráðuneytinu 12. nóvember sl.

Matvælastofnun og Embætti landlæknis standa sameiginlega á bak við Skráargatið og hafa unnið að innleiðingu þess. Um er að ræða opinbert samnorrænt merki sem finna má á umbúðum matvara sem uppfylla ákveðin skilyrði varðandi innihald næringarefna:

  • Minni og hollari fita
  • Minni sykur
  • Minna salt
  • Meira af trefjum og heilkorni

Skráargatið á að auðvelda neytendum hollara val og þar með að fara eftir opinberum ráðleggingum um mataræði því merkið bendir til að vörur sem það bera séu hollari en aðrar vörur í sama flokki sem ekki uppfylla skilyrði til að bera merkið. Í viðauka með reglugerðinni kemur fram hvaða skilyrði vörur þurfa að uppfylla til að mega bera merkið og er notkun þess frjáls að uppfylltum þeim skilyrðum. Í frétt á vef ráðuneytisins kemur að fram að auk þess að vera upplýsandi fyrir neytendur á merkið að hvetja matvælaframleiðendur til að þróa hollari matvörur og stuðla þannig að auknu úrvali á hollum matvælum á markaði. Það er hlutverk Matvælastofnunar og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga að fylgjast með að farið sé eftir reglum um notkun merkisins. Opnað hefur verið sérstakt vefsvæði, skraargat.isþar sem bæði framleiðendur og neytendur geta fundið allar helstu upplýsingar um merkið.