Fréttasafn



22. nóv. 2013

Áherslur og markmið Litla Íslands mótuð á opnum vinnufundi

Litla Ísland efndi til stefnumóts sl. miðvikudag til að fylgja eftir Smáþingi sem haldið var þann 10. október. Um opinn vinnufund var að ræða þar ræddar voru helstu áherslur og markmið í starfi Litla Íslands - nýs vettvangs þar sem lítil fyrirtæki vinna saman óháð atvinnugreinum.

Ljóst er að hlúa þarf vel að þessum fyrirtækjum því tækifærin eru mikil ef þau fá að blómstra. Þannig sýnir könnun SA sem birt var á Smáþingi að lítil og meðalstór fyrirtæki á Íslandi áforma fjölgun um 17.500 störf næstu 3-5 árin. Lítil fyrirtæki með allt að 50 starfsmenn áforma fjölgun um 14 þúsund störf og munar um minna.

Stefnumótið heppnaðist einstaklega vel og vinna er hafin við að greina þær fjölmörgu hugmyndir sem þar voru lagðar fram. Niðurstöðurnar verða kynntar síðar en meðal þess sem fram kom er að halda á lofti mikilvægi lítilla fyrirtækja, skapa virkan vettvang fyrir þau til að tengjast og læra hvert af öðru, minnka reglubyrði og einfalda skattkerfið.