Fréttasafn



22. nóv. 2013

Sjóður stofnaður til eflingar forritunar og tækniþekkingu barna

Markmiðið að draga úr skorti á tækni- og tölvukennslu

Reiknistofa bankanna (RB) og Skema hafa ýtt úr vör sjóði sem ber nafnið „Forritarar framtíðarinnar.“ Meginhlutverk sjóðsins er að efla forritunar- og tæknimenntun í grunn- og framhaldsskólum landsins.

Atvinnulífið tekur höndum saman

Að sjóðnum koma fyrirtæki af öllum stærðum sem leggja honum lið á ýmsan máta, svo sem með fjárframlögum, tæknibúnaði, þekkingu og ráðgjöf. Bakhjarlar sjóðsins  eru  Nýherji, Íslandsbanki, Landsbankinn, Microsoft, RB, Cyan veflausnir og CCP.  Atvinnulífið er mikilvægur hluti þessa samfélagsverkefnis og geta fyrirtæki lagt sitt af mörkum til að efla enn frekar tækniþekkingu íslenskra ungmenna.

Stjórn sjóðsins skipa Gísli Þorsteinsson markaðsstjóri Nýherja, Guðmundur Tómas Axelsson markaðsstjóri RB, Katrín Dóra Þorsteinsdóttir forstöðumaður hugverkaiðnaðar og mannauðs hjá Samtökum iðnaðarins, Ragnhildur Geirsdóttir framkvæmdastjóri Rekstrar- og upplýsingatæknisviðs Landsbankans og Sigríður Olgeirsdóttir framkvæmdastjóri Rekstrar- og upplýsingatæknisviðs Íslandsbanka.

Skortur á tæknimenntuðu fólki

Upplýsingatæknigeirinn vex hratt og má segja að fáar atvinnugreinar geti í dag þrifist án tækni.  Ísland stendur frammi fyrir skorti á tæknimenntuðu fólki í landinu en samkvæmt skýrslu starfshóps á vegum Mennta- og menningarmálaráðuneytis, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samtaka iðnaðarins   útskrifast um 500 manns á ári af raungreina- og tæknisviðum Háskóla landsins á meðan þörfin er um 1.000 manns.

Þórunn Jónsdóttir framkvæmdastjóri Skema segir að börn og unglingar verja miklum tíma í kringum tækni en oft á tíðum sé þeirra reynsla sú að þau verða neytendur tækni í stað þess að fá tækifæri til að vinna og skapa út frá tækninni. „Mikilvægt er að þau fái þjálfun og þekkingu sem til þarf til að kveikja áhugann - en áhugi er fyrsta skrefið í átt að efla enn frekar tæknimenntun þjóðarinnar.“

Skólar og sveitarfélög geta sótt um styrk

Skólar og sveitarfélög geta sótt um styrki úr sjóðnum til að efla tæknikennslu og notkun tækni í skólastarfi og fá til þess þjálfun, ráðgjöf og tækjabúnað, allt eftir þörfum umsóknaraðila. Skema mun sjá um þjálfun og ráðgjöf til styrkþega, en fyrirtækið hefur unnið ötullega að því að undanfarin ár að kenna börnum frá 6 ára aldri að forrita auk þess að þjálfa kennara og vinna að aukinni notkun tækni í skólastarfi.

Opnað verður fyrir umsóknir þann 22. nóvember og verða allar upplýsingar og umsóknarform á vefsíðu sjóðsins, www.forritarar.is.

Stjórnendum fyrirtækja sem áhugasamir eru um þátttöku í verkefninu er bent á að hafa samband við sjóðinn á netfangið forritarar@forritarar.is.