Fréttasafn



29. nóv. 2013

Michelsen úrsmiðir meðal þeirra fremstu

Michelsen Arctic Explorer er ein besta jólagjöfin í ár samkvæmt aBlogtoWatch.com, stærstu úrasíðu í heiminum. Þeir segja úrin „frábær, bæði frá tæknilegu og fagurfræðilegu sjónarhorni“ (e. It's a great watch, from both a technical perspective as well as a aesthetic one).

Arctic Explorer úrið er í góðum félagsskap á þessum lista en önnur heimsfræg merki sem mælt er með í pakkann í ár eru m.a. Rolex, Patek Philippe, Audemars Piguet, A. Lange & Söhne, Panerai og Tudor. Það er mikill heiður fyrir Michelsen úrsmiði að lítill, íslenskur úraframleiðandi skuli komast inn á lista hjá jafn stórri og virtri síðu og aBlogtoWatch.com því öll ofantalinna merkja eru meðal stærstu úrafyrirtækja heims og sýnir hversu miklum árangri Michelsen hafa náð á sínu sviði.

Helst hefur Arctic Explorer úrið vakið athygli fyrir að hafa staðið sig fullkomlega í 40°C frosti og erfiðu veðri hangandi utan á jakka Vilborgar Örnu pólfara þegar hún gekk á Suðurpólinn veturinn 2012.

Hér má nálgast listann sem um ræðir.

Um Arctic Explorer

Michelsen Arctic Explorer var hannað með útivistarfólk og erfiðar aðstæður í huga. Engin rafhlaða er í úrinu heldur gengur það fyrir hreyfingu handarinnar og á því ekki að bregðast á ögurstundu. Skífan er auðlesanleg vegna mikilla andstæðna vísa og skífu en vísarnir eru stórir og greinilegir og skífan einlit með stórum klukkustundamerkingum. Jafnframt er úrið útbúið sérstöku úrverki sem sýnir annað tímabelti sem hentar þeim vel sem ferðast reglulega að geta haft staðar- og heimatíma sýnilega á sama tíma á úrinu.

Úrið er fáanlegt með þremur skífulitum, hvítt, blátt og svart, og með fjölda handgerðra leðuróla, ásamt úrvali af nylon- og gúmmíólum.

Um Michelsen úrsmiði

Michelsen úrsmiðir var stofnað árið 1909 þegar fyrsti Michelsen úrsmiðurinn setti upp úraverslun og -verkstæði á Sauðárkróki. Síðan þá hefur fyrirtækið verið samofið verslunar- og iðnaðarsögu Íslands. Michelsen úrsmiðir eru þekktir fyrir fagmennsku og vandað handverk og það er þessi þekking sem  gengur milli kynslóða sem hefur haldið fyrirtækinu gangandi í yfir 100 ár. Fjórar kynslóðir úrsmiða eru í Michelsen fjölskyldunni sem verður að teljast einstakt, jafnvel á heimsvísu.

Þann 1. desember 2009 var úraframleiðslu fyrirtækisins hleypt af stokkunum eftir yfir 70 ára hlé, til að fagna aldarafmæli fyrirtækisins. Úrin vöktu mikla lukku og seldust upp á skömmum tíma. Síðan þá hefur framleiðslan undið upp á sig sem sjá má á auknu og vönduðu úrvali.