Fréttasafn3. jan. 2014

Andri Þór og Októ fá viðskiptaverðlaun viðskiptablaðsins

Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar Egils Skallagrímssonar og Októ Einarsson, stjórnarformaður Ölgerðarinnar, sem fagnar 100 ára afmæli sínu á þessu ári, fengu í dag Viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins fyrir árið 2013.

Októ Einarsson stjórnarformaður og Andri Þór Guðmundsson forstjóri veittu verðlaununum viðtöku úr hendi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra.

Segir ritstjórn Viðskiptablaðsins í rökstuðningi sínum að þeir Andri Þór og Októ hafi við gríðarlega erfiðar aðstæður stýrt fyrirtækinu í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu eftir bankahrunið og á sama tíma aukið markaðshlutdeild á miklum samkeppnismarkaði. Staða Ölgerðarinnar Egils Skallagrímssonar sé fyrir vikið sterk á 100 ára afmælisári, veltan aldrei verið meiri, framlegðin góð og fjölmörg tækifæri séu framundan.

„Þetta er mikill og einstakur heiður fyrir Ölgerðina Egil Skallagrímsson og raunar allt starfsfólk þess.Þetta er frábær endir á afmælisári okkar og vitnisburður um að það er tekið eftir því starfi og þeim árangri sem við höfum náð á undanförnum árum,“ segir Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar Egils Skallagrímssonar.

Við afhendingu verðlaunanna í dag sagði Björgvin Guðmundsson, ritstjóri Viðskiptablaðsins, að snertifletir Ölgerðarinnar Egils Skallagrímssonar við fólkið í landinu væru margir og fjölbreyttir. Auðvelt væri að skynja kraftinn og eldmóðinn í fyrirtækinu og starfsfólkinu. 

(Ljósmynd: HAG)