Fréttasafn8. jan. 2014

Sjónvarpsþáttur um BOXIÐ – framkvæmdakeppni framhaldsskólanna

RÚV hefur gert sjónvarpsþátt um Boxið - framkvæmdakeppni framhaldsskólanna, sem haldin var í nóvember síðastliðnum. Í þættinum keppa 8 framhaldsskólar til úrslita en 18 lið tóku þátt í forkeppninni. Þátturinn verður á dagskrá á RÚV næsta fimmtudag, 9. janúar kl. 20.

Í Boxinu þurfa keppendurnir að geta unnið hratt og vel að sameiginlegu markmiði og sýna fram á ákveðið hug- og verkvit auk þess sem liðsheild skiptir miklu máli. Keppni af þessu tagi er því góð leið til að gera margvíslegum hæfileikum hátt undir höfði.

Liðin fóru í gegnum þrautabraut með nokkrum stöðvum og fengu hálftíma til að leysa hverja þraut. Þrautirnar voru settar saman af fyrirtækjum úr ólíkum greinum iðnaðarins með aðstoð fræðimanna Háskólans í Reykjavík.

Fyrirtækin sem komu að gerð þrautanna í ár eru Ístak, Marel, Skema, Járnsmiðja Óðins, Promens, TM Software og Marorka.

Að keppninni standa Samtök iðnaðarins, Háskólinn í Reykjavík og Samband íslenskra framhaldsskólanema. Mennta- og menningarmálaráðuneytið studdi að auki við gerð þáttarins.

Nánari upplýsingar um Boxið má finna á: http://boxid.ru.is/