Fréttasafn



8. jan. 2014

Íslandsmót iðn- og verkgreina 2014 og framhaldsskólakynning

Íslandsmót iðn- og verkgreina verður haldið í Kórnum í Kópavogi  6. – 8. mars 2014 og er keppnin sú stærsta til þessa. Framhaldsskólar landsins taka þátt í mótinu og verða með kynningu á starfsemi sinni. Foreldrar og forráðamenn eru hvattir til að nýta þetta einstaka tækifæri og mæta með börnum sínum til að kynna sér fjölbreytt námsframboð – allt á einum stað. Mótshaldarar eiga nú þegar von á  rúmlega 6000 grunnskólanemendur mæti í Kórinn þessa helgi.

Íslandsmótinu er fyrst og fremst ætlað að kynna iðn- og verkgreinar fyrir ungu fólki til að vekja athygli á þeim tækifærum sem felast í námi og störfum þeim tengdum. Keppt verður í 23 greinum en auk þess verða sýningar á margvíslegum iðn- og verkgreinum og því margt að skoða og sjá.

Grunnskólanemendur eru sérstaklega boðnir velkomnir og þeim og öðrum gestum gefinn kostur á að prófa ýmislegt spennandi undir handleiðslu fagfólks. Hér er því um frábært tækifæri til að kynna sér spennandi starfsmöguleika í iðngreinum. 

Meðan á keppni stendur munu 25 framhaldsskólar kynna námsframboð sitt, bæði verklegt og bóklegt og starfsfólk þeirra veita svör við spurningum um námsframboð og inntökuskilyrði. Félag náms- og starfsráðgjafa verður með kynningarbása á svæðinu og munu svara fyrirspurnum um val á námsleiðum, veita upplýsingar um áhugasviðskannanir og fleira.

Íslandsmót iðn- og verkgreina er orðið fastur liður hjá félögum og samtökum sem standa að  verknámsgreinum sem og framhaldsskólum sem kenna verklegar greinar. Íslandsmótið er fjölbreytt og skemmtilegt og veitir ungu fólki tækifæri til sýna fram á færni sína og kunnáttu í iðn- og verkgreinunum.

Þátttakendur á Íslandsmótinu eru nemendur í iðn- og verkgreinaskólum landsins eða þeir sem nýlega hafa lokið námi. Um 200 keppendur takast á við krefjandi og raunveruleg verkefni í samkeppni sem reynir á hæfni, skipulagshæfileika og fagmennsku. Dómarar fara yfir verkefnin að keppni lokinni, meta gæðin og velja þá sem skara fram úr í hverri grein.