Fréttasafn16. jan. 2014

Bifröst og Matís í samstarf um matvælarekstrarfræði

Sveinn Margeirsson forstjóri MATÍS og Vilhjálmur Egilsson rektor Háskólans á Bifröst skrifuðu nýlega undir samning þess efnis að MATÍS sjái um kennslu og uppbyggingu námsgreina í matvælarekstrarfræði, nýrri námslínu sem verður í boði í Háskólanum á Bifröst frá og með næsta hausti. 

Námsgreinar sem MATÍS mun hafa yfirumsjón með tengjast beint innihaldi, meðferð og framleiðslu matvæla og spannar um fjórðung af námi í viðskiptafræði. Með umsjón með náminu tekur MATÍS að sér að skipuleggja og annast kennslu í mörgum þeim námskeiðum sem tengjast matvælarekstrarfræðinni beint. Námskeiðin eru til að mynda í næringarfræði, örverufræði matvæla, matvælavinnslu, matvælalöggjöf og gæðamálum.

Námið er 180 ECTS einingar og lýkur með BS gráðu í viðskiptafræði með áherslu á matvælarekstur og hægt verður að stunda það í fjarnámi og staðnámi eða blöndu af þessu tvennu.

Matís er stærsta rannsóknastofnun landsins sem sinnir rannsóknum og nýsköpun á sviði matvæla og líftækni í þágu atvinnulífsins, lýðheilsu og matvæla- og fæðuöryggis. Matís gegnir umfangsmiklu hlutverki varðandi þjónustu á sviði rannsókna, menntunar og nýsköpunar. Lögð hefur verið áhersla á að mæta þörfum matvælaframleiðenda og frumkvöðla, í samstarfi menntakerfið, m.a. í formi hagnýtra verkefna með þátttöku nemenda og með kennslu ákveðinna námskeiða í matvælafræði og iðnaðarverkfræði við Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri, Landbúnaðarháskóla Íslands og Sjávarútvegsháskóla Sameinuðu Þjóðanna. Matís getur þannig boðið upp á kennara, tengsl við atvinnulífið og aðstöðu til bóklegrar og verklegrar kennslu. Nú bætist Háskólinn á Bifröst í hóp samstarfsaðila MATÍS.