Málþing um lýsingarhönnun
Föstudaginn 27. febrúar sl. stóðu Ljóstæknifélag Íslands og Samtök rafverktaka fyrir málþingi um lýsingarhönnun í þéttbýli í Tjarnarbíói. Á sama tíma voru innflytjendur ljósabúnaðar með vörusýningu í Ráðhúsi Reykjavíkur. Atburður þessi var hluti af Vetrarhátíð í Reykjavík 2014.
Á málþinginu voru mörg áhugaverð erindi. Hildigunnur Sverrisdóttir arkitekt fjallaði um áhrif upplýsingar og ímyndunar á þróun manngerðs umhverfis og fulltrúar Orkuveitunnar og Reykjavíkurborgar fjölluðu um „ljósin í borginni“. Þá fjallaði Johan Morits lýsingarhönnuður frá Svíþjóð um ljósaskipulag í Malmö (Urban light planning) en borgin stefnir á að verða faglegasta borg Evrópu hvað varðar lýsingu. Johan stýrir því verkefni í samstarfi við arkitekta, tæknifólk og listamenn.
Guðmundur Pétur Yngvason kynnti lýsingarlausnir Philips og Henning Cederquist sýndi nýjungar frá Traxton. Rósa Dögg Þorsteinsdóttir fjallaði um Ljósvistarskipulag og betri borg, en Rósa er lærður innanhússarkitekt frá ISAD í Milano og lýsingarhönnuður frá Tækniskólanum í Reykjavík. Að lokum kynntu hönnuðir lýsingarverka á Vetrarhátíð verk sín. Fundarstjóri var Edda Björg Eyjólfsdóttir leikkona.