Fyrstu skref samstarfsvettvangs um álklasa
Undirbúningshópur að samráðsvettvangi um álklasa hittist í fyrsta skipti í fundaraðstöðu Samtaka iðnaðarins og Samáls fimmtudaginn 13. nóvember. Þar voru saman komnir fulltrúar nokkurra lykilfyrirtækja úr ólíkum greinum, sem allar eiga það sammerkt að starfa í áliðnaðinum, en það voru Alcoa, FRV, GMR, Hamar, Járn og blikk, Kratus, Launafl, Mannvit, Málmsteypa Þorgríms Jónssonar, Meitill og GtTækni, Norðurál, Rio Tinto Alcan, Samey, Strokkur, VSÓ ráðgjöf. Auk þeirra sátu fundinn fulltrúar Samtaka iðnaðarins og Samáls, samtaka álframleiðenda.
Pétur Blöndal framkvæmdastjóri Samáls flutti inngangsorðin og kynnti meðal annars niðurstöður skoðanakönnunar, þar sem fram kemur að tæp 70% landsmanna telja áliðnaðinn hafa jákvæð áhrif á íslenskt efnahagslíf en tæp 14% að áhrifin séu neikvæð. Samþykktar voru siðareglur fyrir samstarfið og Davíð Lúðvíksson forstöðumaður stefnumótunar og nýsköpunar hjá Samtökum iðnaðarins kynnti drög að stefnumótun sem til stendur að halda á vordögum. Í framhaldi af því verður efnt til stefnumóts hátt í 100 fyrirtækja og stofnana þar sem leiddar verða saman þarfir og lausnir í áliðnaðinum. Almennt var gerður góður rómur að þessu framtaki á fundinum og eru menn bjartsýnir á að það ýti undir framþróun og verðmætasköpun í greininni.