Fréttasafn



17. feb. 2014

Menntadagur atvinnulífsins 3. mars 2014

Samtök iðnaðarins ásamt sjö atvinnulífssamtökum í húsi atvinnulífsins efna til Menntadags atvinnulífsins mánudaginn 3. mars 2014 á Hilton Reykjavík Nordica kl. 13-16.30. Menntun og fræðsla sem nýtist öllu atvinnulífinu verður þar í kastljósinu en þetta er í fyrsta sinn sem fulltrúar ólíkra atvinnugreina halda sameiginlegan menntadag.

Efling menntunar á öllum skólastigum og framhaldsfræðslu er brýnt hagsmunamál fyrirtækja og eykur samkeppnishæfni þeirra. Á menntadeginum munu forsvarsmenn fjölbreyttra fyrirtækja fjalla um mikilvægi menntunar starfsfólks og nauðsynlegar breytingar á menntakerfinu. Greint verður frá niðurstöðum nýrrar könnun um viðhorf framhaldsskólanema til bóknáms og verknáms.

Dagskrá ráðstefnunnar má nálgast hér (PDF)

Sérstakur gestur Menntadags atvinnulífsins er Dr. Andreas Schleicher, aðstoðarframkvæmdastjóri menntamála hjá Efnahags- og framfarastofnuninni OECD. Mikill fengur er að komu hans til landsins en Schleicher er sérstakur ráðgjafi Angel Gurría, framkvæmdastjóra OECD,á sviði stefnumótunar í menntamálum.

Dr. Andreas Schleicher hefur góða yfirsýn yfir verkefni OECD um samspil hæfni, menntunar og samkeppnishæfni þjóða. Þar má t.d. nefna PISA-könnunina sem metur hæfni 15 ára grunnskólanemenda út um allan heim – hversu vel nemendur við lok grunnskóla hafa tileinkað sér þá þekkingu og hæfni sem þeir þurfa á að halda í nútíma samfélagi. Einnig PIAAC sem kannar hæfni starfsfólks á vinnumarkaði (OECD Survey of Adult Skills). Hér má sjá stutt myndskeið frá OECD um niðurstöður þeirrar könnunar.

http://www.youtube.com/watch?v=XvCLXPDvPCM#t=51

Á menntadeginum verða Menntaverðlaun atvinnulífsins veitt í fyrsta sinn til fyrirtækja sem hafa staðið sig vel á sviði fræðslu- og menntamála.  Fjögur fyrirtæki eru tilnefnd sem Menntafyrirtæki ársins og fjögur fyrirtæki eru tilnefnd sem Menntasproti ársins. Greint verður frá tilnefningum í vikunni fyrir menntadaginn og fyrirtækin rækilega kynnt. Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, mun tilkynna um sigurvegara á menntadeginum og afhenda verðlaun í hvorum flokki fyrir sig.

Ráðstefnustjóri er Eggert B. Guðmundsson, forstjóri N1.

Allir eru velkomnir og ekkert þátttökugjald en nauðsynlegt er að skrá þátttöku hér að neðan.

 SKRÁNING