Kaka ársins komin í bakarí um land allt
Íris Björk Óskarsdóttir hjá Sveinsbakaríi bar sigur úr býtum í keppni um Köku ársins sem Landssamband bakarameistara efnir árlega til. Sala á kökunni í bakaríum félagsmanna Landssambands bakarameistara hefst um næstu helgi, konudagshelgina.
Landssamband bakarameistara efndi nýlega til árlegrar keppni um Köku ársins. Keppnin fer þannig fram að keppendur skila inn tilbúnum kökum sem dómarar meta og velja úr þá sem þykir sameina þá kosti að vera bragðgóð, falleg og líkleg til að falla sem flestum í geð og hlýtur hún titilinn Kaka ársins. Keppnin var haldin í samstarfi við Nóa Síríus.
Alls bárust 20 kökur í keppnina í ár. Sigurkakan er karamellusúkkulaðiterta með anís og rauðum Ópal. Hún er lagskipt, m.a. samsett úr browniesbotni, púðursykurmarengs og karamellusúkkulaðimousse. Kakan er hjúpuð með dökkum súkkulaðihjúp með keim af rauðum ópal. Höfundur hennar er Íris Björk Óskarsdóttir nemi hjá Sveinsbakaríi.
Dómarar í keppninni voru Ferdinand Hansen, verkefnastjóri gæðastjórnunar hjá Samtökum iðnaðarins, Auðjón Guðmundsson, vörumerkjastjóri hjá Nóa Síríusi og Ásthildur Guðmundsdóttir kennari við bakaradeild Hótel og matvælaskólans.
Sala á kökunni hefst í bakaríum félagsmanna LABAK um allt land um helgina og verður til sölu það sem eftir er ársins.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, fékk fyrstu kökuna afhenta í ráuneytinu í gær. Hún brást glöð við og bauð öllum konum ráðuneytisins að njóta kökunnar með sér í tilefni komandi konudags. Hún sagðist bera hag íslensks iðnaðar mjög fyrir brjósti og fagnaði þeirri fagmennsku, drifkrafti og framsækni sem sjá mætti víða í iðnaðinum.