Fréttasafn4. mar. 2014

Samskip og Nordic Visitor hljóta Menntaverðlaun atvinnulífsins 2014

Menntaverðlaun atvinnulífsins voru veitt í fyrsta sinn í dag til fyrirtækja sem hafa staðið sig vel á sviði fræðslu- og menntamála. Samskip voru útnefnd sem Menntafyrirtæki ársins 2014 en ferðaþjónustufyrirtækið Nordic Visitor var útnefnt Menntasproti ársins 2014. Auk heiðursins hljóta starfsmannafélög fyrirtækjanna 100 þúsund krónur hvort.  

Ragnheiður Elín Árnadóttir - iðnaðar- og viðskiptaráðherra afhenti verðlaunin á Menntadegi atvinnulífsins en SA, SAF, SI, SVÞ, SF, LÍÚ, SFF og Samorka stóðu að deginum þar sem menntun og fræðsla sem nýtist öllu atvinnulífinu var í kastljósinu. Þetta er í fyrsta sinn sem fulltrúar ólíkra atvinnugreina halda sameiginlegan menntadag. Efling menntunar á öllum skólastigum og framhaldsfræðslu er brýnt hagsmunamál fyrirtækja og eykur samkeppnishæfni þeirra

Auk Samskipa voru Isavia, Landsbankinn og Rio Tinto Alcan á Íslandi tilnefnd sem Menntafyrirtæki ársins en fyrirtækin leggja öll áherslu á mikilvægi menntunar og hafa skýra mennta-og fræðslustefnu sem er fylgt eftir. Við mat á tilnefningum voru gæði fræðslunnar metin og kannað hvort mennta- og fræðslustefnan hafi eflt menntun innan fyrirtækjanna og aukið samkeppnishæfni þeirra.

Auk Nordic Visitor voru Codland, Landsnet og Leikskólinn Sjáland tilnefnd sem Menntasproti ársins en fyrirtækin hafa öll í rekstri sínum lagt aukna áherslu á fræðslu- og menntamál. Við mat á tilnefningum var skoðað hvort farnar hafi verið nýjar leiðir við eflingu menntunar innan fyrirtækjanna og þátttöku starfsmanna í fræðslustarfinu.

Í dómnefnd sátu Hildur Elín Vignir, framkvæmdastjóri IÐUNAR - fræðsluseturs, Steinn Logi Björnsson stjórnarformaður Bláfugls, Þorsteinn Ingi Sigfússon, forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Ingibjörg Elsa Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins.

Samtök atvinnulífsins og aðildarsamtök þeirra þakka þeim fjölmörgu fyrirtækjum sem sendu inn tilnefningar til Menntaverðlauna atvinnulífsins.

Stutt sjónvarpsinnslög um öll fyrirtækin sem tilnefnd voru til Menntaverðlauna atvinnulífsins má sjá á Vimeo, þar sem fræðslu- og menntastarfi þeirra eru gerð skil.

SMELLTU HÉR TIL AÐ HORFA