Fréttasafn



4. mar. 2014

Niðurstöður Íslensku ánægjuvogarinnar kynntar

Niðurstöður Íslensku ánægjuvogarinnar 2013 voru kynntar í dag en þetta er fimmtánda árið sem ánægja viðskiptavina íslenskra fyrirtækja er mæld með þessum hætti. Að þessu sinni eru niðurstöður birtar fyrir 21 fyrirtæki í 6 atvinnugreinum og byggja niðurstöður á 200-1300 svörum viðskiptavina hvers fyrirtækis. Sú breyting var gerð á fyrirkomulagi í ár að einungis var afhent viðurkenning til þeirra fyrirtækja sem eru með tölfræðilega marktækt hæstu einkunn í viðkomandi atvinnugrein, þ.e. þar sem segja má með 95% vissu að viðskiptavinir fyrirtækisins með hæstu einkunnina séu að jafnaði ánægðari en þess með næst hæstu einkunnina.

Í ár var því afhent viðurkenning í tveimur flokkum; raforkumarkaði þar sem HS orka fékk viðurkenningu með 62,9 stig af 100 mögulegum og farsímamarkaði þar sem Nova var með marktækt hæstu einkunnina, 72,6 stig. Ekki voru afhentar viðurkenningar á bankamarkaði, tryggingamarkaði, í flokki olíufélaga eða fyrir sigurvegara ársins, en ÁTVR mældist með hæstu einkunnina í ár, 74,1, sem reyndist ekki tölfræðilega marktækt hærri en einkunn Nova, sem var næsthæst. Einkunnir allra birtra fyrirtækja í hverri atvinnugrein má sjá hér: http://stjornvisi.is/anaegjuvogin

 Athygli er vakin á siða- og viðmiðunarreglum um notkun á merki Íslensku ánægjuvogarinnar sem einnig voru kynntar nú í morgun:

 1. Merki Íslensku ánægjuvogarinnar er í eigu félagsins Íslenska ánægjuvogin. Íslenska ánægjuvogin er í eigu Capacent ehf., Samtaka iðnaðarins og Stjórnvísis.

 2. Þau fyrirtæki sem nafngreind eru í mælingum Íslensku ánægjuvogarinnar mega nota merkið í auglýsingum og kynningarefni að því gefnu að upplýsingar um niðurstöður og framkvæmd séu réttar.

 3. Aðeins getur fyrirtæki sagst vera sigurvegari eða með ánægðustu viðskiptavinina á markaði ef ánægjuvogareinkunn þess er marktækt hæsta einkunnin í viðkomandi atvinnugrein. Að jafnaði er tölfræðilega marktækur munur á einkunnum aðeins til staðar ef munurinn nær um 3 stigum á 100 punkta kvarða og er þá miðað við 95% vissu.

Íslenska ánægjuvogin er félag í eigu Samtaka iðnaðarins, Stjórnvísi og Capacent Gallup og sér Capacent Gallup um framkvæmd mælinga. Markmið félagsins er að stuðla að samræmdum  mælingum á ánægju viðskiptavina milli atvinnugreina  og fyrirtækja og er áhersla lögð á staðlaðar spurningar þvert á markaði.  Íslenska ánægjuvogin samanstendur af 11 spurningum en auk ánægjuvogarþáttarins  eru mældir þættir sem tengjast  ímynd fyrirtækisins, væntingum viðskiptavina og mati þeirra á gæðum, verðmæti vöru og þjónustu og tryggð.