Fréttasafn  • Prósentumerki

10. mar. 2014

Mesti hagvöxtur síðan 2007

Á síðasta ári var hagvöxtur 3,3% og hefur ekki mælst meiri síðan 2007. Hagstofan birti fyrir helgi fyrstu hagvaxtatölur fyrir síðasta ár í heild sinni. Bjarni Már Gylfason hagfræðingur Samtaka iðnaðarins segir að þetta séu vissulega jákvæð tíðindi en hins vegar rími þau ekki nógu vel við mat félagsmanna SI á núverandi stöðu í efnahagslífinu. „Ný könnun meðal félagsmanna bendir til um 18% aðspurða telji núverandi aðstæður í efnahagslífinu séu frekar eða mjög góðar á meðan 40% telja aðstæður enn slæmar. Þetta segir okkur að þótt hagvöxtur sé að taka vel við sér eru aðstæður og starfsskilyrði margra iðnfyrirtækja afar krefjandi“, segir Bjarni Már.

Á síðasta ári jókst einkaneysla um 1,2%, samneysla um 1,3% en fjárfesting dróst saman um 3,4%. Útflutningur jókst um 5,3% en innflutningur minnkaði um 0,1% þannig að myndarlegur afgangur var af viðskiptum við útlönd eða sem nemur 132 milljörðum. „Ljóst er að utanríkisverslunin er að draga vagninn. Þetta kann að skýra að neikvætt mat margra okkar félagsmanna á efnahagsástandinu þar sem þeir eru fyrst og fremst að selja vörur og þjónustu á innanlandsmarkaði. Mestu skiptir fyrir okkar félagsmenn að fjárfesting fari að taka við sér en það stuðlar að sjálfbærari hagvexti til framtíðar“, segir Bjarni Már.