Yfir 40 fyrirtæki og stofnanir mótuðu framtíðarsýn álklasans
Yfir 40 fyrirtæki og stofnanir komu saman á Hótel Borgarnesi dagana 1.-2. apríl til að móta framtíðarsýn og stefnu fyrir álklasann og áliðnaðinn í landinu. Samstarfsvettvangur um álklasa stóð fyrir fundinum ásamt Samtökum álframleiðenda og Samtökum iðnaðarins.
Á meðal fyrirtækja voru álfyrirtæki, endurvinnslufyrirtæki, verkfræðistofur, vélsmiðjur, málmsteypur og tæknifyrirtæki. Einnig stofnanir á borð við Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Hagfræðistofnun, Hönnunarmiðstöð, Keili, Nýsköpunarmiðstöð, Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík.
Sú stefna sem mótuð var á fundinum verður meðal annars kynnt á ársfundi Samáls 20. maí næstkomandi. En þar kom fram vilji til samstarfs við háskólasamfélagið, til að stuðla að rannsóknum og þróun og og til að leita tækifæra til frekari úrvinnslu áls hér á landi.
Einnig var lagt upp úr því að álklasinn hefði forgöngu um greiningarvinnu á sérhæfingu, þekkingu og vöruframboði sem skapast hefur hér á landi í áliðnaðinum og greiða fyrir markaðssetningu erlendis. Nú þegar selja verkfræðistofur og vélsmiðjur hér á landi vélbúnað og þekkingu til álvera um allan heim.
Fleiri fyrirtæki og stofnanir hafa lýst áhuga á að koma að samstarfsvettvangnum og er stefnt að því í framhaldinu að efna til stefnumóts þarfa og lausna í áliðnaðinum.