Fréttasafn



  • Mannvirki

22. apr. 2014

Fáar íbúðir að koma á markað

Samtök iðnaðarins hafa lokið við talningu íbúða í framleiðslu á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt henni eru einungis 891 íbúðir á byggingarstigi 4-7 sem eru íbúðir frá fokheldi til fullbúinna eigna. Þetta er töluvert undir þörf markaðarins en talið er að árlega þurfi að byggja um 1500-1800 íbúðir. Þó má greina aukningu á byggingu nýs húsnæðis frá síðustu talningu sem fram fór í lok sumars 2013 en 1126 íbúðir eru í framleiðslu á byggingarstigi 2-4, sem er sökklar að fokheldi.

Miðað við þessar tölur er engin þensla að myndast á íbúðamarkaði. Ef horft er til þess að 1500-1800 íbúðir þurfi árlega ættu rúmlega 3000 íbúðir að vera í byggingu núna en eru einungis 2017 á öllum byggingarstigum. Er þá miðað við að byggingartími sé 24 mánuðir.

SI hefur lengi bent á mikilvægi þess að byggja fjölbreytt íbúðahúsnæði. Síðustu ár hefur megináherslan verið  lögð á stærri eignir og hefur það skapað þörf fyrir smærri eignir. Þetta kom berlega í ljós fyrir stuttu þegar 25 litlar íbúðir án bílakjallara seldust upp á einum sólahring.

Sveitarfélög verða að líta til lækkunar lóðaverðs og breytinga á uppbyggingu lóðaverðs. Ein ástæða þess að framkvæmdaaðilar fóru útí framleiðslu stærri eigna var að lóðaverðið var nánast það sama fyrir stóra og litla íbúð í fjölbýlishúsum.