Fréttasafn



30. apr. 2014

Nýr framkvæmdastjóri Skema

Árdís Ármannsdóttir  hefur verið ráðin til að gegna stöðu framkvæmdastjóra Skema. Hún tekur við af Þórunni Jónsdóttur sem mun flytjast til starfstöðva móðurfyrirtækis Skema, Rekode Education í Washington fylki í Bandaríkjunum.

Skema var stofnað af Rakel Sölvadóttur árið 2011 og er leiðandi í kennslu og ráðgjöf í notkun tækni og forritunar á grunn- og framhaldsskólastigi á Íslandi.

Árdís mun stýra rekstri og áframhaldandi uppbyggingu og vexti Skema á Íslandi, en í dag starfa 6 manns auk um 20 leiðbeinenda og aðstoðarkennara hjá félaginu. Hún mun einnig leiða stækkun Skema og reKode á Evrópumarkað, segir í fréttatilkynningu.

Árdís er með mastersgráðu í stjórnun og stefnumótun frá Háskólanum í Árósum og er með áralanga reynslu í markaðssetningu og stefnumótun auk víðtækrar þekkingar á rekstrarumhverfi nýsköpunar- og samfélagsfrumkvöðlafyrirtækja.

Hún kemur til Skema frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands þar sem hún hefur verið markaðsstjóri um árabil. Hún mun hefja störf þann 1. maí næstkomandi.