Fréttasafn26. maí 2014

Þaramajónesið Fjaran sigrar í EcoTrophelia Ísland

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra veitti verðlaun í keppninni EcoTrophelia Ísland sl .föstudag á Nýsköpunartorgi í í Háskólanum í Reykjavík. 

EcoTrophelia Ísland er hluti af alþjóðlegri keppni og er vöruþróunarkeppni meðal háskólanemenda sem felst í því að þróa vistvæna matvöru. Markmið keppninnar er að minnka umhverfisáhrif frá íslenskri matvælaframleiðslu með því að skapa nýjar vistvænar mat- og drykkjarvörur. Þar er m.a. um að ræða notkun vannýttra hráefna, notkun nýrra og umhverfisvænna framleiðsluaðferða, umbúða eða flutningsmáta. Að keppninni standa Nýsköpunarmiðstoð Íslands, Matís og Samtök iðnaðarins í samstarfi við íslenska háskóla.

Tvö lið kepptu til úrslita í ár. Annað liðið skipa þær Brynja Einarsdóttir, Guðjóna Björk Þorbjarnardóttir og Hrefna Lind Einarsdóttir og voru þær með vöruna BEjuicy sem er frostþurrkaður grænmetissafi á duftformi. Hitt liðið skipa Christopher Melin og Páll Arnar Hauksson með vöruna Fjöru sem er þaramajónes. Svo fór að þaramajónes var valið sigurvegari Ecotrophelia Ísland að þessu sinni. 

Fjaran majónesið er skemmtileg nýjung á matvælamarkaði. Majónesið er unnið úr íslensku þangi og er þangið sólþurrkað á íslensku hrauni. Varan hentar grænmetisætum (e. vegans) jafnt sem öðrum sem áhuga hafa á því að bæta hollustuefnum í mataræði sitt. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu vörunnar, http://www.p.is/fjara/.