Fréttasafn



3. jún. 2014

Alefli hlýtur C-vottun

Alefli ehf. hefur hlotið C-vottun SI sem staðfestir að reksturinn er í góðum höndum, studdur með öflugu verkbókhaldi, góðri skipulagningu og með mikla sérstöðu varðandi áherslur í öryggis- og heilbrigðismálum.

Alefli var stofnað í febrúar árið 1993 og hefur verið rekið og í eigu sömu aðila allt frá upphafi, eða í 20 ár. Það eru húsasmíðameistararnir Arnar Guðnason og Þorsteinn Kröyer. Árið 2003 bættist Magnús Þór Magnússon, húsasmíðameistari, í hóp eigenda, en hann hafði starfað hjá fyrirtækinu um árabil. Starfsmenn hafa margir hverjir starfað hjá fyrirtækinu til fjölda ára. Samanalagður starfsaldur helstu stjórnenda er því mjög hár samanborið við mörg önnur verktakafyrirtæki í byggingastarfsemi.

Gæðatrygging og öryggismál

Alefli hefur á undanförnum árum leitast við að auka og bæta enn frekar innra gæðaeftirlit fyrirtækisins. Til að byrja með voru verkefni Aleflis af þeim toga að fyrirtækið studdist mest við utanaðkomandi þjónustu gagnvart gæðaeftirliti á verkum sínum en með auknum umsvifum og fjölbreyttari verkefnum hefur þörfin aukist á innra gæðaeftirliti og hefur fyrirtækið brugðist við því með að tileinka sér viðurkennda vinnuferla og stuðst við SI.