Fréttasafn25. ágú. 2014

Almar Guðmundsson nýr framkvæmdastjóri SI

Almar Guðmundsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.


Almar er hagfræðingur frá Háskóla Íslands og með MBA gráðu frá London Business School. Almar hefur undanfarin fimm ár verið framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda en áður starfaði hann við ýmis stjórnunarstörf innan Íslandsbanka. Almar er formaður knattspyrnudeildar Stjörnunnar í Garðabæ. Hann hefur einnig á undanförnum árum fengist við kennslu við Háskólann í Reykjavík. Almar er kvæntur Guðrúnu Zoega, hjúkrunarfræðingi, og eiga þau fimm börn.

 „Samtök iðnaðarins bjóða Almar hjartanlega velkominn til starfa. Við væntum mikils af ráðningu hans en framundan hjá Samtökunum eru bæði spennandi og krefjandi verkefni nú þegar við sjáum að íslenskt efnahagslíf er að rétta úr kútnum eftir erfið ár,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir formaður SI.

„Samtök iðnaðarins eru stór og sterk samtök og það er mikilvægt að rödd iðnaðarins fái að hljóma svo að atvinnulífið og samfélagið allt megi blómstra. Á bakvið Samtök iðnaðarins er fjöldi bæða stórra og smárra fyrirtækja sem saman mynda undirstöðu framfara og framleiðni í landinu. Ég hlakka til að vinna með aðildarfyrirtækjum, stjórn og starfsmönnum SI að þeim mikilvægu verkefnum sem framundan eru í íslensku atvinnulífi,“ segir Almar Guðmundsson nýráðinn framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.

---
Nánari upplýsingar veita Guðrún Hafsteinsdóttir í s. 660-1610 og Almar Guðmundsson í s. 618-2898