Fréttasafn10. sep. 2014

Blikksmiðurinn með D - vottun

Blikksmiðurinn hf. hefur staðist úttekt á fyrsta þrepi áfangaskiptrar gæðavottunar Samtaka iðnaðarins og hlotið D-vottun.

D-vottun er fyrsti hluti gæðavottunarkerfis SI sem tekið er upp í fjórum áföngum. Með gæðavottunarkerfinu er stefnt að því að gera rekstur fyrirtækja skilvirkari. Í því fer fyrirtækið í gegnum stefnumótun þar sem afkoma hvers verks eða vöru er skilgreind með það að markmiði að auka framleiðni og hagnað fyrirtækisins.

Blikksmiðurinn var stofnaður 1985 og var starfsemin fyrstu árin að Vagnhöfða í Reykjavík, en flutti um miðjan tíunda áratug síðustu aldar að Malarhöfða 8 í Reykjavík. Húsnæði félagsins er mjög rúmgott og hefur félagið um 1.600 m2 undir starfsemi sína. Blikksmiðurinn hf. er vel tækjum búinn og hefur verið að endurnýja tækjabúnað.

Núverandi eigendur Blikksmiðsins hf. eru Karl Hákon Karlsson, framkvæmdastjóri, Valdimar Þorsteinsson verkefnastjóri, Guðmundur Jónsson verkstjóri og Ágúst Páll Sumarliðason þjónustustjóri.  Núverandi eigendur keyptu félagið á árunum 2005 og 2007.     

Blikksmiðurinn hf. hefur átt góðu gengi að fagna og og er nú með um 35 starfsmenn og hefur vaxið á undanförnum árum. 

Gildi Blikksmiðsins hf. eru „Þekking – færni – þjónusta“ og hefur þeim verið gert hátt undir höfði í starfsemi félagsins. 

Áherslur félagsins eru á almenna blikksmiðavinnu, s.s. nýsmíði loftræstikerfa, viðhald loftræstikerfa og smíði á utanhúsklæðingum. Blikksmiðurinn hf. leggur áherslu á heildarlausnir fyrir viðskiptavini sína og hefur bæði tæknideild og þjónustudeild innan fyrirtækisins til viðbótar við blikksmiðju.