Fréttasafn  • Borgartún 35

18. sep. 2014

SA og SI mótmæla auknu eftirliti

Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins telja fyrirhuguð lagaákvæði  um aukið eftirlit með flutningum á landi óþörf og að önnur lög nægi til að tryggja hag neytenda og almennings. Með frumvarpinu sé enn verið að auka kostnað fyrirtækjanna við að halda uppi eftirlitsstarfsemi án þess að nokkur sjáanlegur ávinningur verði af eftirlitinu. Þetta kemur fram í nýrri umsögn samtakanna til innanríkisráðuneytisins.

Nýlega kynnti innanríkisráðuneytið á vef sínum drög að frumvarpi um farmflutninga á landi þar sem gert er ráð fyrir að flutningur á farmi gegn gjaldi verði bundinn leyfum Samgöngustofu og að aukið verði eftirlit með flutningum. Undanþegnir leyfum eru eigin flutningar iðnfyrirtækja og verktaka.

Samtökin telja að önnur ákvæði laga nægi fyllilega til að tryggja hagsmuni almennings og neytenda og nefna reglur um meirapróf flutningabílstjóra, reglur um gerð og búnað ökutækja og um meðferð farms. Einnig gildi lög um viðskiptahætti sem Neytendastofa hafi eftirlit með.

Samtökin telja hættu á að kostnaður við eftirlitið verði verulegur og lendi á endanum á almenningi í landinu.

Sjá nánar: 

Umsögn SA og SI um drög að frumvarpi til laga um farmflutninga á landi, 17.9.2014.