Fréttasafn  • Fjöreggið

13. okt. 2014

Matvæladagurinn 2014

Matvæladagur Matvæla- og næringarfræðafélags Íslands (MNÍ) 2014 verður haldinn á Hótel Sögu föstudaginn 17. október frá kl. 13-17. Dagurinn verður að þessu sinni helgaður umfjöllun um upplýsingamiðlun tengda matvælum, frá framleiðslu til neytanda út frá mismunandi sjónarhornum undir yfirskriftinni  Miðlun upplýsinga um matvæli - áhrif hollustu, umhverfis og uppruna á val.

Einnig verður fjallað um fæðuöryggi og matarsóun, ráðleggingar um mataræði og næringarefni og hvernig þær nýtast í daglegu lífi.

Með Matvæladeginum vill MNÍ velta upp ástæðum fyrir matarvali neytenda og þeim aðferðum sem framleiðendur og seljendur nota til að hafa áhrif á val. Þar koma til fjölmargir þættir eins og verð, hollusta, siðferði, samfélagsleg ábyrgð og opinberar reglur um merkingar matvæla, en síðast en ekki síst forsendur neytenda til að meta þær upplýsingar sem þeir hafa og á hverju þær byggjast.
Einnig verður fjallað um matarsóun og fæðuöryggi og hvaða áhrif þessir þættir hafa á umhverfið, samfélagið og hagkerfið enda nauðsynlegt að taka á  þessum málum af alvöru.

MNÍ vill sýna frumkvæði að því að tengja saman fagstéttir til að auka skilning á kauphegðun neytenda og hvaða hvatar liggja að baki því hvað neytendur velja, og ekki síst af hverju þeir velja það sama aftur og aftur.

Matvæladagurinn var fyrst haldinn árið 1993. Dagurinn er árlegur viðburður og oftast haldinn í tengslum við alþjóðlegan dag fæðunnar, þann 16. október, sem er stofndagur Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO). Í tilefni af Matvæladeginum gefur MNÍ einnig út veglegt blað er nefnist Matur er mannsins megin. Þar er fjallað er um ýmislegt er tengist efni Matvæladagsins auk ýmissa áhugaverðra málefna á sviði matvælaiðnaðar, næringar, heilsu og manneldis.

Á Matvæladaginn verður Fjöregg MNÍ afhent en það er veitt fyrir lofsvert framtak á sviði matvæla og/eða næringar að mati dómnefndar MNÍ. Fjöreggið er veglegur verðlaunagripur, hannaður og smíðaður af Gleri í Bergvík og hefur frá upphafi verið gefinn af Samtökum iðnaðarins.

Dagskrá og upplýsingar um skráningu er að finna á vef MNÍ, www.mni.is.