Fréttasafn



13. okt. 2014

Stendur þú skil á þínu?

Samtök iðnaðarins hafa aftur hleypt af stokkunum auglýsingaherferð með slagorðinu Stendur þú skil á þínu? Tilgangurinn er að sporna gegn svartri atvinnustarfsemi og vekja fólk til umhugsunar um að skattsvik af þessu tagi kosta samfélagið tugi milljarða árlega.

Talið er að tekjutap hins opinbera vegna svartrar atvinnustarfsemi geti verið nálægt 70 milljörðum króna á þessu ári. Fyrir þá upphæð mætti reka allt menntakerfi landsins í eitt og hálft ár eða reka Landspítalann í heilt ár.

Áætlað umfang svartrar atvinnustarfsemi og skattsvika

Í heild er talið að skattsvik á hverju ári geti numið allt að  11,5% af heildarskatttekjum ríkis og sveitarfélaga. Svört atvinnustarfsemi vegur þyngst, eða allt að 8% af þeirri upphæð. Skattsvik vegna bókhalds- og framtalssvika nema allt að 2% og skattsvik vegna erlendra samskipta 1,5%.

Í ár má gera ráð fyrir að heildartekjur hins opinbera verði nálægt 870 milljarða króna. Reikna má með að umfang skattsvika geti numið allt 100 milljörðum króna. Þar af allt að 70 milljörðum króna vegna svartrar atvinnustarfsemi.

Samtök iðnaðarins hvetja alla til að kaupa hvorki né selja svarta vinnu og beina því til atvinnurekenda að fara að settum reglum og lögum í sínum rekstri.

Sjá nánar á: http://www.si.is/svort-vinna/