Fréttasafn16. okt. 2014

Basel í Sviss kaupir Mentor kerfið í alla 265 skóla sveitarfélagsins

Sveitarfélagið Basel í Sviss bauð nýverið út námskerfi fyrir alla sína grunn- og framhaldsskóla og varð íslenskt hugvit fyrir valinu.

Mentor kerfið, sem flestir kennarar, foreldrar og nemendur í grunnskólum á Íslandi þekkja vel, er notað í rúmlega 1000 skólum í sex löndum Evrópu. Við þetta bætast nú 265 skólar í Sviss, nánar tiltekið í sveitarfélaginu Basel.

„Þetta er mikil viðurkenning“, segir Claudia Vennemann sem stýrir uppbyggingu Mentors í Sviss og Þýskalandi. „Að vinna svona stórt útboð er gríðarlegur styrkur fyrir þróun Mentor kerfisins auk þess sem við fáum mikla þekkingu í samstarfi við eitt framsæknasta sveitarfélagið á sviði menntunar í Sviss. Svissneskir viðskiptavinir eru mjög kröfuharðir sem tryggir að allt sem við gerum þarf að vera á heimsmælikvarða.“

„Samningurinn er sannkölluð vítamínsprauta“, segir Vilborg Einarsdóttir, forstjóri Mentors. „Við höfum unnið að þróun nýrrar kynslóðar sl. þrjú ár og munu fyrstu íslensku skólarnir taka hana í notkun nú í janúar.“ Nýr Mentor byggir á tengingu við námskrá hvers lands og er sniðinn að áætlanagerð og námsmati út frá nýjum áherslum í kennslufræðum. „Við erum t.d. með einstaklega öfluga einingu til að halda utan um speglaða kennslu, sem er að taka flugið víðsvegar í Evrópu“, segir Vilborg.