Fréttasafn



7. nóv. 2014

Boxið - framkvæmdakeppni framhaldsskólanna fer fram á morgun

Framhaldsskólanemar treysta á hugvitið

  • Þetta er í fjórða skiptið sem Boxið – framkvæmdakeppni framhaldsskólanna er haldin

  • Átta skólar komust áfram í úrslitakeppnina

  • Aldrei hafa fleiri stelpur tekið þátt og núna í ár

Fjöldi framhaldsskólanema mun leggja leið sína í Háskólann í Reykjavík á morgun, 8. nóvember, til að taka þátt í úrslitum í Boxinu - framkvæmdakeppni framhaldsskólanna. Tuttugu og sex lið tóku þátt í forkeppni og af þeim komust átta í úrslitakeppnina. Í hverju liði eru fimm keppendur. Keppnin er kl. 10-16:30.

Skólarnir sem keppa í Boxinu í ár eru: Menntaskólinn á Akureyri, Menntaskólinn í Reykjavík, Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum, Flensborgarskóli, Kvennaskólinn í Reykjavík, Verkmenntaskólinn á Akureyri, Menntaskólinn við Sund og Fjölbrautaskóli Suðurlands.

Liðin fara í gegnum þrautabraut og fá hálftíma til að leysa hverja þraut. Í fyrra þurftu keppendur meðal annars að að búa til lítið fley sem getur flotið á vatni, leysa forritunardæmi og að búa til píanó úr álpappír með aðstoð tölvuforrits.

Keppendur þurfa að geta unnið hratt og vel að sameiginlegu markmiði og sýna fram á hug- og verkvit auk þess sem liðsheild skiptir miklu máli. Keppni af þessu tagi er því góð leið til að gera margvíslegum hæfileikum hátt undir höfði. Við mat á lausnum ræður meðal annars tími, gæði lausnar og frumleiki.

Mikil leynd hvílur yfir því hverjar þrautirnar eru og sérstakir siðgæðisverðir fylgja liðunum eftir á keppnisdaginn svo að enginn fái upplýsingar um þær þrautir sem á eftir að leysa. Þrautirnar eru settar saman af fyrirtækjum úr ólíkum greinum iðnaðarins með aðstoð fræðimanna HR. Fyrirtækin sem koma að gerð þrautanna í ár eru Advania, Héðinn, ÍAV, Ístex, Kjarnafæði, Oddi, Stiki og Össur.

Stelpum hefur farið fjölgandi ár frá ári í keppninni. Fjöldi þeirra margfaldast í ár þar sem 16 stelpur taka þátt í úrslitakeppninni (37,4% þátttakenda) en voru 6 í fyrra (17%).

Um Boxið – framkvæmdakeppni framhaldsskólanna

Þetta er í fjórða sinn sem keppnin er haldin. Að henni standa Samtök iðnaðarins, Háskólinn í Reykjavík og Samband íslenskra framhaldsskólanema. Markmið með keppninni er að kynna og vekja áhuga á tækni, verk- og tækninámi og störfum í iðnaði. Það var Kvennaskólinn í Reykjavík sem sigraði í Boxinu í fyrra.