Fréttasafn



  • Mannvirki

3. nóv. 2014

Of lítið byggt til að mæta eftirspurn

Samkvæmt talningu Samtaka iðnaðarins hefur nýjum íbúðum sem eru í byggingu á höfuðborgarsvæðinu fjölgað um ríflega 400 frá því í mars.

Jón Bjarni Gunnarsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir í viðtali við Morgunblaðið sl. föstudag alla fjölgunina stafi af fjölbýlishúsum. Einbýlishúsum sem eru í byggingu hefur hins vegar fækkað frá síðustu talningu í mars.

Aðspurður segir Jón Bjarni  að fjöldi nýrra bygginga sé undir lýðfræðilegri eftirspurn fyrir nýjar íbúðir.  „Við teljum að það þurfi að framleiða 1.500-1.800 íbúðir á ári og miðað við að framleiðslutími sé 18-24 mánuðir á íbúð ættu jafnan að vera u.þ.b. 3.000 íbúðir í framleiðslu. Því eru þessar 2.400 íbúðir sem eru í framleiðslu í dag undir meðaltali og ekki þensla á markaðinum,“ segir Jón Bjarni.

SI hafa lengi bent á mikilvægi þess að byggja fjölbreytt íbúðahúsnæði. Uppsöfnuð þörf er á markaði vegna þess að lítið hefur verið byggt undanfarin ár. Síðustu ár hefur megináherslan verið  lögð á stærri eignir og hefur það skapað þörf fyrir smærri eignir, sérstaklega íbúðir fyrir fyrstu kaupendur.

Í þessu samhengi verða sveitarfélög að líta til lækkunar lóðaverðs og breytinga á uppbyggingu lóðaverðs. Ein ástæða þess að byggingaaðilar fóru út í framleiðslu stærri og dýrari eigna var að lóðaverðið var nánast það sama fyrir stóra og litla íbúð í fjölbýlishúsum.

Um áramót mun byggingarkostnaður hækka verði af áformum um að lækka endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu iðnaðarmanna á byggingastað. Ætla má að hækkun byggingavísitölu verði um það bil 2,8%. Það vinnur gegn því að framleitt verði það byggingamagn sem lýðfræðileg eftirspurn kallar á.