Fréttasafn



  • Hæstiréttur Íslands

6. nóv. 2014

Lýsingu gert að endurgreiða verktaka vegna ólöglegra gengistryggðra kaupleigusamninga

Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu í dag að Lýsingu bæri að endurgreiða verktakafyrirtækinu Eykt rúmar 65 milljónir króna ásamt dráttarvöxtum vegna 32 kaupleigusamninga er höfðu að geyma ólöglega gengistryggingu.  

Hæstiréttur hafnaði þeim málatilbúnaði Lýsingar að umræddir kaupleigusamningar væru í raun leigusamningar sem heimiluðu gengistryggingu. Ennfremur taldi rétturinn að Lýsing gæti ekki ekki krafið Eykt um viðbótargreiðslu vegna afborgana og vaxta af skuld þess síðarnefnda, sem innt var af hendi á tímabilinu fram að endurútreikningum samninganna, enda verður litið svo á að fyrirtækið sé eins sett og hefði það fengið í hendur fullnaðarkvittun fyrir hverri afborgun.

Vísaði Hæstiréttur til forsenda héraðsdóms varðandi aðrar málsástæður. Þar kom m.a. fram að aðstöðumunur væri á milli aðilanna. Lýsing væri fjármálafyrirtæki og m.a. sérfræðingur í fyrirtækjafjármögnun. Ekkert í gögnum málsins hafi bent til þess að Eykt hefði búið yfir slíkri sérþekkingu um fjármálastarfsemi. Sem fjármálafyrirtæki stóð það því nær Lýsingu að gæta að því að samningarnir væru í samræmi við lög nr. 38/2001. Auk þess var ljóst að skilmálar kaupleigusamninganna voru ákveðnir einhliða af Lýsingu.

„Samtök iðnaðarins fagna þessari niðurstöðu Hæstaréttar sem varpar skýru ljósi á réttarstöðu þeirra fjölmörgu fyrirtækja sem voru með kaupleigusamninga hjá Lýsingu. Dómurinn er í samræmi við fjölmarga aðra dóma er fjölluðu um hvernig haga skuli vaxtarreikningi ólöglegra gengistryggðra kaupleigusamninga. SI gera þá kröfu að Lýsing leiðrétti tafarlaust alla kaupleigusamninga og skora á yfirvöld að fylgja því eftir að Lýsing, sem og önnur fjármálafyrirtæki, virði afdráttarlausar niðurstöður dómstóla varðandi endurútreikninga á ólöglegum gengistryggðum samningum“ segir Sigurður B. Halldórsson, lögfræðingur SI.