Fréttasafn



10. nóv. 2014

MR sigraði í Boxinu

Það var Menntaskólinn í Reykjavík sem bar sigur úr býtum í Boxinu- framkvæmdakeppni framhaldsskólanna sem fór fram um helgina. Í öðru sæti var Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum og Menntaskólinn við Sund í því þriðja. Lið frá átta framhaldsskólum leystu þrautir í úrslitakeppninni, sem fór fram í Háskólanum í Reykjavík.

Liðin fóru í gegnum þrautabraut og fengu hálftíma til að leysa hverja þraut. Þrautirnar voru settar saman af fyrirtækjum úr ólíkum greinum iðnaðarins með aðstoð fræðimanna HR. Fyrirtækin sem komu að gerð þrautanna í ár voru Advania, Héðinn, ÍAV, Ístex, Kjarnafæði, Oddi, Stiki og Össur. Við mat á lausnum ræður meðal annars tími, gæði lausnar og frumleiki.

Keppendur þurftu að geta unnið hratt og vel að sameiginlegu markmiði og sýna fram á hug- og verkvit. Keppni af þessu tagi er því góð leið til að gera margvíslegum hæfileikum hátt undir höfði.

Dæmi um þrautir

  • Smíða krana á afmörkuðu vinnusvæði. Kraninn var síðan togprófaður. Markmið þrautarinnar var að ná sem mestum togkrafti án þess að kraninn myndi kikna undan álagi.

  • Nota 34 púsl til að setja saman skordýr í þvívídd

  • Útbúa „TRX“ band úr ullarkembu. Á staðnum var krókur og band til að smeygja ullarbandinu í gegnum og tvö 40 kg lóð til að prófa styrk bandsins.

  • Byggja eins háan turn og hægt er úr burðarbitum úr súkkulaði.

Skólarnir sem kepptu í Boxinu í ár voru: Menntaskólinn á Akureyri, Menntaskólinn í Reykjavík, Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum, Flensborgarskóli, Kvennaskólinn í Reykjavík, Verkmenntaskólinn á Akureyri, Menntaskólinn við Sund og Fjölbrautaskóli Suðurlands. Í 4. sæti var MA og í 5. sæti Kvennaskólinn í Reykjavík en á 3. og 4. sæti munaði einu stigi og sama átti við um 4. og 5. sæti. Sumsé, afar mjött á munum þar.

Um Boxið – framkvæmdakeppni framhaldsskólanna

Þetta er í fjórða sinn sem keppnin var haldin. Að henni standa Samtök iðnaðarins, Háskólinn í Reykjavík og Samband íslenskra framhaldsskólanema. Markmið með keppninni er að kynna og vekja áhuga á tækni, verk- og tækninámi og störfum í iðnaði.