Fréttasafn



12. nóv. 2014

Vara Kerecis viðurkennd af bandaríska heilbrigðisráðuneytinu

Bandaríska heilbrigðisráðuneytið hefur viðurkennt vöru ísfirska lækningavörufyrirtækisins Kerecis. Þetta kemur fram á fréttavefnum visir.is í dag. Vara Kerecis, sem er úr þorskroði og ætluð til að meðhöndla þrálát sár, er því orðin gjaldgeng hjá félagslega hluta bandaríska heilbrigðiskerfisins, Medicare og Medicaid, sem og öllum þeim þúsundum einkarekinna tryggingafyrirtækja sem þjónusta heilbrigðiskerfið þar í landi.

Að sögn Guðmundar Fertram Sigurjónssonar, framkvæmdastjóra Kerecis eru Bandaríkin stærsti markaður fyrir vörur af þessu tagi, sem ekki síst nýtast sívaxandi hópi fólks með sykursýki og fylgikvilla hennar, þrálát sár sem valda þúsundum aflimana á ári hverju.

Varan sem um ræðir er byggð á Kerecis Omega3-tækni félagsins og er ætluð til meðhöndlunar á þrálátum sárum. Varan, sem heitir Kerecis Omega3 Wound, er affrumað þorskroð sem lagt er beint ofan í sár sem síðan er búið um með hefðbundnum sáraumbúðum. Frumur líkamans vaxa inn í efnið og breyta því að lokum í heilbrigða húð.

Sjá frétt á visir.is