SI senda Samkeppniseftirlitinu erindi vegna óeðlilegrar samkeppnisstöðu RB á upplýsingatæknimarkaði
Samtök iðnaðarins hafa sent Samkeppniseftirlitinu erindi vegna óeðlilegrar samkeppnisstöðu Reiknistofu bankanna á upplýsingatæknimarkaði. Málið lýtur að meðferð virðisaukaskatts í sölu þjónustu og vöru og hvort útboðsskyldu fjármálafyrirtækja sem eru hluthafar í RB hafi verið sinnt.
Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins í máli um undanþágubeiðni vegna starfsemi RB og samruna við Teris árið 2012 var RB og hluthöfum fyrirtækisins sett ákveðin skilyrði til að tryggja að önnur upplýsingatæknifyrirtæki gætu boðið þjónustu sína í samkeppni við RB. Meðal annars voru fjármálafyrirtæki sem eru hluthafar í RB skylduð til þess að framkvæma útboð eða verðkönnun við kaup á upplýsingatækniþjónustu. Auk þess átti að koma í veg fyrir að mismunandi skattaleg meðferð hefði áhrif á hverjir geti keppt um viðskipti við fjármálafyrirtækin en starfsemi RB hafði fram að þessu verið undanþegin virðisaukaskatti.
Innan SI eru fjölmörg upplýsingatæknifyrirtæki sem eru í beinni samkeppni við RB. Samtökunum hafa borist upplýsingar um að þrátt fyrir framangreind skilyrði Samkeppniseftirlitsins þurfi RB ekki að leggja virðisaukaskatt á útsenda reikninga líkt og önnur upplýsingatæknifyrirtæki hafa gert. Sé þetta raunin skekkir það samkeppnisstöðu á upplýsingatæknimarkaði verulega.
Samtök iðnaðarins telja mikilvægt að meðferð virðisaukaskatts í sölu þjónustu og vöru á umræddum markaði sé á jafnréttisgrunni og að RB njóti í engu fyrri stöðu. SI óska eftir að Samkeppniseftirlitið taki það til skoðunar auk þess að kanna hvort útboðs- eða verðkönnunarskyldu hafi verið sinnt sbr. fyrri tilmæli. Er mikilvægt að hafa í huga í þessu samhengi að 25% af veltu RB er fyrir utan eigendahópinn og fyrirtækið hefur boðað enn frekari markaðssókn.
Erindi SI til Samkeppniseftirlitsins
Viðtal við Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóra SI í sjónvarpsfréttum Rúv í gærkvöldi