Fréttasafn



7. maí 2020 Almennar fréttir Nýsköpun

NSA leitar stöðugt að fjárfestingartækifærum

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, er jafnframt formaður stjórnar Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, NSA, en í nýútkominni ársskýrslu sjóðsins er birt ávarp hans. Það fer hér á eftir: 

Árið 2019 voru stigin stór og þýðingarmikil skref í nýsköpun á Íslandi. Stjórnvöld unnu nýsköpunarstefnu í góðu samráði og var hún kynnt um haustið. Í stefnunni er því lýst yfir að Ísland sé nýsköpunarland. Slík yfirlýsing skiptir miklu máli og sýnir vel áhuga stjórnvalda og skilning á mikilvægi nýsköpunar. Ráðherra hefur þegar kynnt aðgerðir til að fylgja stefnunni eftir, þar á meðal um stofnun Kríu sem mun bæta enn frekar fjármögnunarumhverfi sprota- og nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi. Þetta er sérstaklega brýnt núna þegar horft er til mestu efnahagskreppu í heila öld.

Of mikið hefur verið einblínt á eina atvinnugrein í einu hér á landi. Á fyrsta áratug aldarinnar dreif fjármálaþjónusta vöxtinn en það endaði með hruni. Ferðaþjónusta leiddi vöxt á öðrum áratug aldarinnar en það endaði einnig með skelli þó að allar líkur séu á að greinin nái sér á strik. Látum þriðja áratuginn verða áratug nýsköpunar með aukinni fjölbreytni í atvinnulífi sem leggur grunn að auknum stöðugleika. Þannig fjölgar störfum, meiri verðmæti verða til, útflutningur eykst og hagkerfið nær þannig fyrri styrk og gott betur. Aðgerðir stjórnvalda þessi misserin styðja við þessa sýn og bera með sér von um bjartari tíma.

Nýsköpun er ein af fjórum meginstoðum samkeppnishæfni sem er nokkurskonar heimsmeistaramót þjóða í lífsgæðum. Þeim mun meiri sem samkeppnishæfnin er, þeim mun meiri verðmæti verða til og þar af leiðandi verður meira til skiptanna. Nýsköpun skiptir máli fyrir fyrirtækin, fyrir efnahagslífið og fyrir samfélagið allt.

Með nýsköpun skapa fyrirtæki sér forskot í samkeppni á markaði og þess vegna þarf sífellt að huga að þróun. Aukin verðmæti og spennandi störf verða til fyrir tilstuðlan nýsköpunar sem hefur þar með jákvæð áhrif á efnahagslífið. Nýsköpun leiðir til lausna á samfélagslega mikilvægum viðfangsefnum, t.d. í heilbrigðismálum og loftslagsmálum, og bætir þannig samfélagið og lífsgæði. Þess vegna er nýsköpun svo mikilvæg og henni þarf að sinna öllum stundum.

Hlutverk Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins er að stuðla að uppbyggingu og vexti íslensks atvinnulífs með því að taka þátt í fjárfestingum í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum. Árið 2019 rækti sjóðurinn það hlutverk sitt með því að bæta þremur nýjum fyrirtækjum við eignasafnið auk þess að styðja við vöxt annarra fyrirtækja í eignasafninu. Þá seldi sjóðurinn eign sína í Menn og Mýs ehf. sem gefur sjóðnum tækifæri til að styðja við önnur félög á næstu árum en á það mun reyna með hliðsjón af núverandi ástandi. Sjóðurinn hefur fjárfest í 160 fyrirtækjum frá stofnun hans árið 1998 og á nú í25 fyrirtækjumsem skapa yfir 400 störf og velta yfir 5 milljörðum króna á ári. Síðastliðið ár var sjóðnum hagfellt þar sem reksturinn skilaði afgangi annað árið í röð. Hafa ber í huga að sjóðurinn fær ekki fjármuni til rekstrar úr ríkissjóði heldur eru útgjöld fjármögnuð af sjóðnum sjálfum. Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins er eini sígræni sjóður sinnar tegundar hér á landi en það þýðir að hann hefur ekki tiltekinn líftíma heldur er stöðugt að leita að fjárfestingartækifærum.

Sjóðurinn veitir fyrirtækjum ekki aðeins fyrirgreiðslu í formi fjármagns heldur er hann öflugur bakhjarl og traustur samstarfsaðili. Starfsmenn sjóðsins búa yfir mikilli reynslu og þekkingu sem nýtist vel við vöxt fyrirtækja auk þess sem ákvörðun sjóðsins um að fjárfesta í fyrirtækjum felur í sér ákveðinn gæðastimpil sem hjálpar til við frekari vöxt. Í nær öllum fjárfestingum sjóðsins undanfarin ár hefur hann verið fyrsti utanaðkomandi fjárfestirinn í viðkomandi fyrirtæki. Þannig er hann ekki í samkeppni við aðra fjárfesta á markaðnum. Sjóðurinn gegnir því mikilvægu hlutverki við fjármögnun sprotafyrirtækja á Íslandi.

Ég þakka stjórnarmönnum og starfsmönnum sjóðsins fyrir gott og árangursríkt samstarf á árinu.