Fréttasafn31. maí 2023 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Menntun Nýsköpun

Nú er þörf fyrir öðruvísi sérfræðinga en áður

Það er stórkostlegt að fylgjast með fyrirtækjum verða til og vaxa sem óhugsandi var að gera sér í hugarlund að yrðu til fyrir nokkrum árum eða áratugum. En þetta þýðir jafnframt að nú er þörf fyrir öðruvísi sérfræðinga en áður. Þetta segir Nanna Elísa Jakobsdóttir, viðskiptastjóri á iðnaðar- og hugverkasviði SI, í grein á Vísi með yfirskriftinni Sonurinn með er þörungasérfræðingur

Nanna segir í greininni að Samtök iðnaðarins hafi gert könnun á meðal félagsmanna sinna á síðasta ári sem leiddi í ljós að mörg þúsund manns þarf til starfa í hugverkaiðnaði á næstu fimm árum ef vaxtaáætlanir fyrirtækjanna eiga að ná fram að ganga. En það sem meira sé, könnunin leiddi í ljós að við þurfum vel menntaða sérfræðinga með þverfaglega og djúpa tækniþekkingu í hinum ýmsu greinum. Svör fyrirtækjanna við spurningunni hvers konar sérfræðiþekkingu vantar voru svo fjölbreytt að engin leið var að taka þau saman í einfalda flokkun, forritari sem er fær um að vinna í tæknilistapípu, þörungasérfræðingur, viðmótshönnuður, verkfræðingar með reynslu af gæðastjórnun í lyfjaiðnaði, kvikarar og svo mætti áfram telja. Þetta eru spennandi, skapandi og vel launuð störf sem bjóða upp á fjölbreytt tækifæri í mörgum af mest spennandi fyrirtækjum á Íslandi.

Jafnframt kemur fram í greininni að nú standi yfir innritun í háskóla landsins og sé ýmislegt spennandi háskólanám í boði. „Ég hélt áður fyrr að nám og starfsframi væri línulaga, ég færi í ákveðið nám sem skilaði mér inn í ákveðið starf, en svo er ekki. Í heimi hugverkaiðnaðar er þekking gulls ígildi og það sem skiptir mestu er að geta unnið þverfaglega, að skilja tæknina, geta viðhaft gagnrýna hugsun og kunna að læra og vera forvitin. Sérhæfð þekking er grundvallaratriði og hana er að fá í háskólanámi,“ skrifar Nanna.

Á vef Vísis er hægt að lesa greinina í heild sinni.

Vísir, 31. maí 2023.