Fréttasafn22. sep. 2017 Almennar fréttir Mannvirki

Ný deild tekin til starfa með ungum ráðgjafarverkfræðingum

Ný deild tók nýverið til starfa innan Félags ráðgjafarverkfræðinga, FRV, sem er eitt af aðildarfélögum SI. Í deildinni sem nefnist Yngri ráðgjafar, YR, eru ráðgjafar sem eru yngri en fjörutíu ára. 

Fyrirmyndin að slíkri deild er sótt til systurfélaga FRV en víða erlendis eru starfandi sambærilegar deildir undir heitinu Young Professionals. Markmið og tilgangur starfsins er að efla tengslamyndun og fræðslu ráðgjafa innan FRV sem eru undir fertugu. Áformaðir eru fræðslufundir og fyrirlestrar meðal þessa hóps. Nýverið var tilnefndur vinnuhópur eða stjórn sem skipuleggur og hefur allan veg og vanda af starfsemi YR. Líkt og móðurfélagið FRV mun YR starfa í tengslum við systurfélög á Norðurlöndunum.

Vinnuhópinn skipa þau Arnar Kári Hallgrímsson, formaður, Arnór Már Guðmundsson, Birgir Indriðason, Davíð S. Snorrason, Rafn Camillusson og Jóhanna Ásta Vilhjálmsdóttir sem kjörin var varaformaður. Á myndinni er hópurinn að störfum en á myndina vantar Davíð.