Fréttasafn



3. maí 2017 Almennar fréttir Menntun

Ný námslína fyrir stjórnendur í iðnaði í Opna háskólanum í HR

Samtök iðnaðarins og Opni háskólinn í HR hafa undirritað samstarfssamning um nýja námslínu sem ætluð er stjórnendum sem starfa í iðnaði. Áherslan í þessari nýju námslínu er á hagnýta þekkingu þar sem stjórnendum er gefið tækifæri til að efla færni sína í starfi. Kennt verður með raunhæfum verkefnum til að tengja námið vinnuumhverfi og viðfangsefnum þátttakenda.

Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir, sviðsstjóri fagsviðs mennta- og mannauðsmála hjá SI, segir að Samtök iðnaðarins leggi áherslu á að stöðugt sé unnið að því að efla menntun fyrir atvinnulífið. „Það er ekki lengur framtíðarógn heldur staðreynd að nýliðun er ábótavant í mörgum greinum. Þrátt fyrir að unnið sé markvisst að því að efla grunnnám og fjölga nemendum eru fjölmargar áskoranir sem stjórnendur í íslenskum iðnaði standa frammi fyrir. Því er mikilvægt að stjórnendur hafi tækifæri til að sækja sér menntun til að takast á við breytingar í starfsumhverfinu þar sem viðfangsefnin eru fjölbreytt og verkefnin krefjandi. Með aukinni menntun geta stjórnendur orðið samkeppnisfærir og leiðandi á sínu sviði.“  

Guðmunda Smáradóttir, forstöðumaður Opna háskólans, segir að um sé að ræða hagnýtt nám þar sem unnið verði með raunhæf verkefni sem þátttakendur geti tengt við dagleg störf. „Sérstök áhersla verður lögð á persónulega starfsþróun þátttakenda með það að leiðarljósi að efla faglega þekkingu stjórnenda og auka færni, frammistöðu og frumkvæði þeirra í dagsins önn. Að kennslunni koma margir af færustu sérfræðingum Háskólans í Reykjavík auk samstarfsaðila úr íslensku atvinnulífi sem allir hafa mikla reynslu á sínu sviði. Námið er ætlað lykilstarfsmönnum og veitir góða innsýn í flest það sem stjórnendur eru að kljást við í daglegum störfum sínum. Þetta er því kjörinn vettvang fyrir stjórnendur sem vilja bæta þekkingu sína án þess að skuldbinda sig í nám til langs tíma.“

Á myndinni eru talið frá vinstri: Sandra Kr. Ólafsdóttir hjá HR, Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir og Jóhanna Vigdís Arnardóttir báðar hjá SI og Guðmunda Smáradóttir hjá HR.